„Það má segja sem svo að maður hafi náð úr sér hrollinum eftir að hafa fengið töluvert tækifæri til að spila og ganga ágætlega,“ segir stórskyttan Þorsteinn Leó Gunnarsson við handbolta.is í dag á hóteli landsliðsins í Zagreb í Krótatíu.
Hinn 22 ára gamli Mosfellingur og leikmaður FC Porto hefur skoraði sjö mörk í tveimur fyrstu leikjunum, flest með þrumuskotum og að minnsta kosti eitt með sannkölluðu langskoti gegn Kúbu í gærkvöld. Þá kastaði hann boltanum frá punktalínu á vallarhelmingi Íslands og yfir í autt mark Kúbu. Markvörður Kúbu var fjarri góðu gamni.
„Maður getur alltaf gert betur. Ég þarf að fækka mistökum sem ég gerði í gær því gegn sterkari liðum er manni refsað fyrir hver mistök,” segir Þorsteinn Leó sem hrósar samherjum sínum fyrir samvinnuna í leikjunum til þessa.
Ekkert komið á óvart
Spurður hvort eitthvað hafi komið honum á óvart á mótinu til þessa segir Þorsteinn Leó svo ekki vera. „Ég hef tekið þátt í stórmótum með U-landsliðunum. Það er svipað og þetta nema hvað allt er stærra á þessu móti en umgjörðin er lík. Handboltavöllurinn er jafn stór, eina sem breytist er að stúkan er stærri.”
Er hvergi banginn
Þorsteinn Leó er hvergi banginn fyrir viðureignina á morgun, mánudag, gegn Slóveníu. „Við verðum að koma vel stemmdir. Leika góðan varnar- og sóknarleik. Þá ætti ekki vera nein vandamál. Ég þarf að eiga góðan leik. Það er ekki nóg að eiga góðan leik gegn slakari liðunum. Góðir leikmenn eru góðir gegn góðum liðum,” segir Þorsteinn Leó Gunnarsson landsliðsmaður í handknattleik.
Lengra myndskeiðsviðtal er við Þorstein Leó inn í þessari frétt.
A-landslið karla – fréttasíða.