- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gott að vakna við að sólin skein inn um gluggann

Elliði Snær Viðarsson, landsliðsmaður og leikmaður Gummersbach. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Það er alltaf og gott að skipta um umhverfi og ekki var það verra að vakna við sólin að sólin skein inn um gluggann á herberginu. En fyrst og fremst er fínt að vera mættur á leikstað. Við erum klárir í slaginn,“ sagði Elliði Snær Viðarsson, landsliðsmaður í handknattleik þegar handbolti.is hitti hann stuttlega að máli á hóteli íslenska landsliðsins í Búdapest í dag.

„Við erum að slípast saman jafnt og þétt. Maður finnur að menn ná betur saman með hverri æfingunni sem líður. Síðan um áramótin höfum við æft oft og mikið saman sem ég tel að muni hjálpa okkur mikið þegar út í alvöruna á mótinu verður komið. En svo sannarlega mun það koma betur í ljós á föstudaginn þegar við leikum fyrsta leikinn á mótinu,“ sagði Elliði Snær ennfremur en hann er nú að taka þátt í sínu öðru stórmóti á ferlinum sem leikmaður. Áður hafði Elliði Snær farið á tvö stórmót í röð sem áhorfandi.


„Ég er heldur betur klár í slaginn,” bætti Elliði Snær við en lét þess getið að hann væri óviss um hvort hann verður í hópi þeirra sextán leikmanna sem taka þátt í upphafsleiknum við landslið Portúgal á föstudagskvöld. „Ég vonast til þess en ekki er hægt að slá einhverju föstu.“

Elliði Snær sagði ennfremur að fyrsti leikur í stórmóti væri ævinlega mikilvægur sama hver andstæðingurinn er. Það skipti miklu máli að byrja vel.
Spurður hvort það væri ekki svolítið annað að mæta til leiks í ár en fyrir ári þegar hann var nýliði í hópnum sagði Elliði Snær svo vera.

„Ég var svolítið blautur á bak við eyrun í fyrra og þótt svo megi kannski segja um mig ennþá þá hef ég öðlast talsverða reynslu og tekið framförum á einu ári. Ég átta mig betur á hlutunum og þekki betur inn á út í hvað ég er að fara núna en á HM í fyrra þegar ég var með í fyrsta sinn. Ég veit betur hvar ég stend,“ sagði Elliði Snær Viðarsson, landsliðsmaður í handknattleik.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -