„Það var allt annað að sjá til liðsins í dag. Við lékum heilt yfir góðan leik,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Íslandsmeistara Vals eftir sex marka sigur á Haukum, 29:23, í 19. umferð Olísdeildar kvenna í gærkvöld. Með sigrinum færðist Valsliðið skrefi nær deildarmeistaratitlinum þegar liðið á tvo leiki eftir óleikna.
„Varnarleikurinn var góður auk þess sem okkur tókst að keyra vel á Haukaliðið. Sóknarleikur okkar var beinskeyttur og góður. Sigurinn var sanngjarn,“ sagði Ágúst Þór léttur í bragði og ljóst að fargi var létt af kappanum eftir tap fyrir Fram á laugardaginn.
Ekki veitir af vegna þess að framundan er ferð hjá Valsliðinu til Slóvakíu hvar það mætir meisturum landsins, MSK IUVENTA Michalovce, í fyrri umferð undanúrslita Evrópubikarkeppni kvenna á sunnudaginn. Valsliðið fer út í fyrramálið, föstudag.
Besta liðið til þessa
„Við erum að fara í mjög erfiðan leik í Slóvakíu á sunnudaginn. MSK IUVENTA Michalovce er langbesta liðið af þeim sem við höfum mætt í keppninni fram til þessa. Við verðum að ná alvöru frammistöðu á erfiðum útivelli til þess að eiga möguleika heima í síðari viðureigninni,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals.
Heimaleikur 30. mars
Fyrri viðureign Vals og MSK IUVENTA Michalovce fer fram í Chemkostav Arena í bænum Michalovce í Slóvakíu klukkan 16 á sunnudaginn. Síðari leikurinn verður háður á Hlíðarenda sunnudaginn 30. mars kl. 17.30.
Lengra viðtal er við Ágúst Þór í myndskeiði hér fyrir ofan.
Deildarmeistaratitillinn er innan seilingar hjá Val
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.