Stórskyttan Þorsteinn Leó Gunnarsson hefur verið skráður á Evrópumótið í handknattleik og verður þar af leiðandi mögulega með í leiknum við Króatíu í fyrstu umferð milliriðlakeppni Evrópumótsins á morgun. Þorsteinn Leó kemur inn í hópinn í stað Elvars Arnar Jónssonar, sem meiddist í leiknum gegn Ungverjalandi.
Þorsteinn Leó, sem meiddist með félagsliði sínu í nóvember, hefur verið með íslenska hópnum allt mótið og æfði með liðinu í dag. Hann hefur fengið grænt ljós til þátttöku frá læknateymi íslenska landsliðsins.
Það verða því 17 leikmenn sem Snorri Steinn landsliðsþjálfari getur valið úr fyrir leikinn gegn Króatíu sem hefst klukkan 14.30 á morgun.
Einn óskráður
Elvar Ásgeirsson sem kom til móts við landsliðið í gær hefur ekki verið skráður til leiks ennþá.


