- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Grannþjóðirnar byrjuðu vel

Staðfest hefur verið að Daninn Rasmus Lauge er með slitið krossband. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Danir fóru vel af stað í undankeppni EM þegar þeir mættu landsliði Sviss í Árósum í leik sem fram átti að fara í gærkvöld en var frestað meðan menn leituðu af sér allan grun um að kórónuveirumsit væri að finna í herbúðum svissneska landsliðsins.

Heimsmeistarar Dana unnu með fimm marka mun, 31:26, eftir að hafa leikið frábæran varnarleik í fyrri hálfleik og aðeins fengið á sig átta mörk en skoruðu á sama tíma 14.

„Við vörðumst vel í fyrri hálfleik en á sama tíma var sóknarleikurinn ekki alveg upp á það besta,“ sagði Nicolaj Jakobsen, landsliðsþjálfari Dana í samtali við TV2 strax eftir leik. „Í seinni hálfleik vorum við ekki nógu grimmir. En ágætis byrjun,“ sagði Jacobsen ennfremur.

Danir sækja Finna heim á laugardaginn en Sviss leikur við Norður-Makedóníu í Sviss.

Rasmus Lauge lék afar vel og var markahæstur með níu mörk. Lasse Svan, Magnus Landin og Nikolaj Øris skoruðu fjögur mörk hver. Mikkel Hansen var daufur og skoraði þrjú mörk í átta tilraunum.

Andy Schmid var yfirburðamaður í liði Sviss. Hann skoraði 10 mörk í 13 skotum. Lenny Rubin var næstur með fjögur mörk.

Skoruðu 20 mörk í fyrri

Hampust Wanne skoraði níu mörk í 11 skotum þegar sænska landsliðið vann það rúmenska, 33:30, í áttunda riðli í Partille í Svíþjóð. Sænska landsliðið lék afar vel í fyrri hálfleik og lagði þá grunn að sigri. Staðan að honum loknum var 20:12.

Frábær varnarleikur og markvarsla var aðal sænska landsliðsins í fyrri hálfleik. Upp úr þessu hreppti liðið mörg hraðaupphlaup og fengu rúmensku leikmennirnir ekki við neitt ráðið. Þeim tókst aðeins að klóra í bakkann í seinni hálfleik en aldrei þó svo mikið að forskoti Svía yrði ógnað.

Albin Lagergren og Lucas Pellas skoruðu fimm mörk hvor fyrir sænska landsliðið sem fór vel af stað undir stjórn Norðmannsins Glen Solberg sem ráðinn var eftir EM í byrjun árs. Kristján Andrésson hætti þá þjálfun sænska landsliðsins eins og gert hafði verið ráð fyrir.

Það þykir sæta nokkrum tíðindum að Norðmaðurinn hefur sett áfengisbann hjá leikmönnum meðan þeir eru í verkefnum á vegum landsliðsins. Nokkrir landsliðsmenn gerðust sekir um að dreypa á guðaveigum og vera á næturrölti á meðan EM stóð yfir í byrjun ársins. Slíkt á ekki að koma fyrir meðan Norðmaðurinn verður við stjórnvölin hjá sænskum.

Gabriel Florinel Dumitru var markahæstur í rúmenska liðinu með sex mörk. Gabriel Bujor, Marius Sadoveac, Andrei Negru, Nicusor og Calin Mihai Cabut skoruðu fjórum sinnum hver.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -