- Auglýsing -
Grétar Ari Guðjónsson fór á kostum í marki Sélestat þegar liðið vann Nancy, 30:23, í fyrstu umferð næst efstu deildar franska handknattleiksins í gærkvöld. Grétar Ari varði 17 skot, 42,5%, og var svo sannarlega sá maður sem reið baggamuninn fyrir Sélestat.
Sélestat féll úr efstu deild í vor eftir eins árs veru í deildinni. Stefnan hefur verið tekin á að endurheimta sætið í vor. Víst er að fleiri lið verða um hituna.
Grétar Ari er að hefja sitt fjórða keppnistímabil í franska handknattleiknum. Hann fór frá Haukum til Nice sumarið 2020. Hjá Nice var Hafnfirðingurinn í tvö ár áður en hann færði sig um set til Sélestat fyrir rúmu ári.
- Auglýsing -