Grétar Ari Guðjónsson og liðsfélagar í AEK unnu Olympiakos í fyrsta uppgjöri Aþenuliðanna á leiktíðinni í gríksku úrvalsdeildinni í kvöld, lokatölur, 28:27. AEK var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda, m.a. 13:12, í hálfleik. Olympiakos skoraði tvö síðustu mörkin í viðureigninni.
Ekki liggur ljóst fyrir hversu mikið Grétar Ari lék í leiknum en AEK-liðið hefur á að skipa þremur markvörðum. Samkvæmt myndum á heimasíðu AEK voru þeir allir í hópnum í kvöld.
AEK hefur þar með 16 stig eftir átta leiki. Olympiakos, sem varð grískur meistari í vor eftir sigur á AEK í úrslitakeppni, hefur 14 stig. PAOK er í þriðja sæti með 12 stig. Önnur lið standa þeim nokkuð að baki en 12 lið eru í efstu deild gríska handknattleiksins í karlaflokki.



