Óvænt úrslit urðu í Grill 66-deild kvenna í dag þegar ungmennalið Hauka, sem hafði aðeins unnið einn leik á tímabilinu, lagði FH, 22:16, á Ásvöllum. Haukar voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 11:8, og voru með yfirhöndina nánast frá upphafi til enda.
FH situr áfram í þriðja sæti Grill 66-deildar kvenna en er nú fjórum stigum á eftir Gróttu sem situr í öðru sæti með stigin sín 12 eftir sjö umferðir. Selfossliðið ber höfuð og herðar yfir önnur lið deildarinnar með fullu húsi stiga eftir sigur á ungmennaliði Vals í gær, 40:19, eins og sagt er frá hér.
Sara Katrín Gunnarsdóttir var afar öflug í liði Hauka og skoraði m.a. átta mörk. Elísa Helga Sigurðardóttir átti frábæran leik í markinu. Hún varði 16 skot.
FH-ingum tókst ekki að sýna sitt rétta andlit enda er oft sagt að enginn leiki betur en andstæðingurinn leyfir. Emilía Ósk Steinarsdóttir var atkvæðamest hjá FH-ingum eins og stundum áður. Emilía Ósk skoraði sex mörk.
Sjöundu umferð Grill 66-deild kvenna lýkur á morgun með viðureign Fram U og Víkings í Úlfarsárdal. Leikurinn hefst klukkan 16.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.
Mörk Hauka U.: Sara Katrín Gunnarsdóttir 8, Rósa Kristín Kemp 4, Thelma Melsted Björgvinsdóttir 3, Þóra Hrafnkelsdóttir 3, Brynja Eik Steinsdóttir 2, Katrín Inga Andradóttir 2.
Varin skot: Elísa Helga Sigurðardóttir 16.
Mörk FH: Emilía Ósk Steinarsdóttir 6, Ena Car 4, Dagný Þorgilsdóttir 2, Karen Hrund Logadóttir 2, Brynja Katrín Benediktsdóttir 1, Thelma Dögg Einarsdóttir 1.
Varin skot: Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 11.