Viggó Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður þýska liðsins Stuttgart, er hópi starfsmanna karlaliðs Gróttu í kvöld en liðið glímir þessa stundina við FH í annarri umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Kaplakrika.
Viggó er staddur hér á landi þessa dagana vegna þess að hann er ekki leikfær eftir að hafa fingurbrotnað fáeinum dögum fyrir fyrsta leik Stuttgart í þýsku 1. deildinni snemma í þessum mánuði.
Viggó er hinsvegar mikill Gróttumaður og lék bæði handknattleik og knattspyrnu áður en hann fór utan í atvinnumennsku fyrir rúmum fimm árum. Honum rennur því blóðið til skyldunnar að miðla af reynslu sinni og aðstoða lið sitt þegar hann er heima og kappleikur stendur fyrir dyrum.