Þýska 2. deildarliðið Gummersbach með Guðjón Val Sigurðsson í þjálfarasætinu heldur sigurgöngu sinni áfram. Í dag lagði Gummersbach liðsmenn Dessauer í uppgjöri tveggja efstu liða deildarinnar, 34:26, á heimvelli. Gummersbach er þar með komið með 12 stig að loknum sjö leikjum en Dessauer er í öðru sæti með sama stigafjölda en að loknum níu viðureignum.
Eyjamaðurinn Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú mörk í fimm skotum fyrir Gummersbach og var einnig umsvifamikill í vörninni og var m.a. vísað í tvígang af leikvelli.
Gummersbach-liðið var mikið sterkara í leiknum frá upphafi til enda og hafði m.a. fjögurra marka forystu að loknum fyrri hálfleik, 17:13.
Annað Íslendingalið, Bietigheim sem Aron Rafn Eðvarðsson ver markið hjá og Hannes Jón Jónsson þjálfar, átti að leika í dag en viðureigninni var frestað vegna kórónuveirusmits sem fannst innan leikmannahópsins fyrir helgi. Leik liðsins við Nettelsted í næstu viku hefur einnig verið slegið á frest af þeim sökum.
Keppni í 2. deild er meira og minna gengin úr skorðum þar sem liðin hafa leikið frá þremur og upp í níu leiki.