Guðjón Valur Sigurðsson og Ólafur Stefánsson voru á meðal 30 handknattleikskarla sem teknir voru inn í Heiðurshöll Handknattleikssambands Evrópu, EHF, (EHF Hall of Fame). Heiðurshöllin var kynnt til sögunnar á galahátið EHF í Vínarborg síðdegis í dag.
Guðjón Valur og Ólafur er vel að heiðrinum komnir enda hafa fáir handknattleiksmenn sett svip sinn á evrópska handknattleikssögu á undanförnum áratugum. Guðjón Valur er m.a. markahæsti landsliðsmaður sögunnar. Hann lék frá 1999 til 2020 365 A-landsleiki og skoraði í þeim 1.879 mörk. Ólafur tók þátt í 330 landsleikjum frá 1991 til 2013 og skoraði 1.570 mörk og er þriðji markahæsti landsliðsmaður frá upphafi vega.
Báðir lék þeir með fremstu félagsliðum heims á sínum ferli og voru menn sem skiptum sköpum í sigrum liða sinna í Evrópukeppni og á landsmeistaramótum. Þá voru þeir leiðtogar í íslenska landsliðinu, hvor á sinn hátt en voru um leið fyrirmyndir.
Ólafur og Guðjón Valur voru báðir í silfurliði Íslands í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Bejing 2008 og bronsliðinu á EM 2010.
EHF vígði 30 handknattleikskarla og 30 handknattleikskonur inn í Heiðurshöll sína í dag. Til Heiðurhallarinnar var stofnað í fyrra til að minnast þess að þá voru 30 ár liðin frá því að EHF var sett á laggirnar. Meðal helstu baráttumanna fyrir stofnun EHF var Jón Hjaltalín Magnússon þáverandi formaður Handknattleikssambands Íslands.
Hér fyrir neðan er finna nöfn 60 handknattleikfólks sem tekin voru inn í Heiðurshöll EHF í kvöld. Víst er að valinn maður er í hverju skipsrúmi, eins og sagt var til sjós í gamla daga.