Guðmundur Þórður Guðmundsson og liðsmenn hans í Fredericia HK blésu á allar spár um að Aalborg Håndbold ætti danska meistaratitilinn næsta vísan þetta árið. Eftir tap í fyrsta úrslitaleik liðanna þá svöruðu leikmenn Fredericia HK fyrir sig í gær með sætum sigri, 31:30, á heimavelli í öðrum leik liðanna sem fram fór í thansen-Arena í Fredericia. Þar með kemur til úrslitaleiks liðanna í Álaborg á laugardaginn.
Í hnífjöfnum leik í gær voru taugar leikmanna þandar til hins ýtrasta. Fredericia átti sókn á síðustu mínútu og gat aukið forskot sitt í tvö mörk en allt kom fyrir ekki. Fabian Nosten markvörður Aalborg varði frá Nikolaj Nielsens línumanni Fredericia. Álaborgarliðið sneri vörn í sókn. Þá kom annar markvörður til sögunnar, Sebastian Frandsen markvörður Fredericia. Hann sá til þess að Patrick Wiesmach jafnaði metin fyrir Álaborg á síðustu sekúndu.
Jafntefli dugði Aalborg Håndbold í leiknum til þess að vinna einvígið vegna sigurs í fyrri viðureigninni.
Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði eitt mark fyrir Fredericia HK og var tvisvar vikið af leikvelli. Hann verður, eins og aðrir leikmenn, klár í slaginn með Fredericia HK í Gigantium Arena í Álaborg á laugardaginn.
Úrslitaleikur um bronsið
Elvar Ásgeirsson lék ekki með Ribe-Esbjerg sem tapaði fyrir Skjern, 32:25, í annarri viðureign liðanna um bronsverðlaunin í dönsku úrvalsdeildinni. Elvar meiddist á öxl í undanúrslitaleik við Fredericia.
Eins og í rimmu Aalborg og Fredericia þá verða Ribe-Esbjerg og Skjern að mætast í úrslitaleik um 3. sætið á laugardaginn í Skjern. Hvort lið hefur unnið einn leik.
Ágúst Elí Björgvinsson varði þrjú skot, 20%, þá stund sem hann varði mark Ribe-Esbjerg á heimavelli í gær.