Lærisveinar Guðmundar Þórðar Guðmundssonar í Fredericia Håndboldklub lögðu svo sannarlega ekki árar í bát í úrslitakeppninni um danska meistaratitilinn í handknattleik eftir níu marka tap fyrir Aalborg Håndbold í fyrsta leik liðanna í Álaborg á sunnudaginn.
Í kvöld bitu þeir í skjaldarrendur og unnu Álaborgarliðið í Fredericia, 30:29, í háspennuleik. Knúði Fredericia liðið þar með fram oddaleik sem fram fer í Álaborg á sunnudaginn. Jafntefli nægði Aalborg til að komast áfram.
Reiner Taboda skoraði tvö síðustu mörk leiksins fyrir heimaliðið, það síðara þegar fimm sekúndur voru til leiksloka. Álaborgarliðið hafði tapað boltanum 50 sekúndum fyrir leikslok í jafnri stöðu, 29:29. Fredericia með sjö menn í sókn í lokin.
Einar Þorsteinn Ólafsson lék afar vel í sterkri vörn Fredericia auk þess sem hann átti eina stoðsendingu.
Eigum möguleika
Guðmundur Þórður hældi varnarleik liðsins á hvert reipi í samtali við TV2 eftir leikinn. Reyndar tók hann einnig fram að liðið hafi leikið afar vel, stærstan hluta leiksins. „Við eigum möguleika,“ svarði glaðbeittur Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfari Fredericia við TV2 um oddaleikinn í Álaborg á hvítasunnudag.
Aron var á skýrslu
Aron Pálmarsson meiddist í fyrsta leik liðanna. Hann var í leikmannahópi Aalborg Håndbold en kom ekkert við sögu. Arnór Atlason var að vanda Stefan Madsen þjálfara Álaborgarliðsins til halds og trausts.
GOG leikur til úrslita
Meistarar síðasta árs, GOG, leika til úrslita um titilinn. GOG vann Skjern á útivelli í kvöld, 37:30. GOG vann einnig öruggan sigur í fyrsta leiknum. Skjern leikur þar með um bronsverðlaunin við Fredericia eða Aalborg Håndbold.