FH-ingar fengu slæma útreið hjá þýska liðinu Gummersabach í viðureign liðanna í Kaplakrika í kvöld í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik karla og það á sjálfan 95 ára afmælisdag Fimleikafélags Hafnarfjarðar. Nítján mörk skildu liðin að þegar frá var horfið eftir 60 mínútna leik, 40:21. Staðan í hálfleik var 19:12, Gummersbach í vil.
FH-ingum tókst ekki að stilla upp sínu sterkasta liði í kvöld. Aron Pálmarsson kom ekkert við sögu. Ólafur Gústafsson var ekki á fullri ferð og Ásbjörn Friðriksson var fjarri sínu besta. Ungt lið FH reyndi hvað það gat og framan af leik gekk nokkið vel. Þrjú vítaköst fór forgörðum á fyrstu 20 mínútunum sem sló FH-inga enn frekar út af laginu. Jafnt og þetta jókst munurinn var sjö mörk eftir fyrri hálfleik, 19:12.
Sóknarleikur FH beið skipbrot á fyrstu 10 mínútum síðari hálfleiks. Gummersbach fékk hvert hraðaupphlaupið á eftir öðru. Fljótlega varð mögulegt að margfalda markafjölda FH-inga með tveimur til að fá út fjölda marka Gummersbach. Ungt og reynslulítið lið FH missti móðinn. Lái þeim hver sem vill. Stundum óskar maður þess að hægt sér að stytta leiktímann.
Frábært kvöld í Kaplakrika
Þessi slæmu úrslit slógu ekki þann lokatón í stórkostlegt kvöld í Kaplakrika sem maður hafði vonast eftir. Félögin, FH og Valur, stóðu frábærlega að handboltaveislunni. Umgjörðin var upp á tíu. Eiga félögin heiður og sóma að.
Uppselt var á kvöldið, 2.000 aðgöngumiðar voru seldir.
Mörk FH: Birgir Már Birgisson 5, Einar Örn Sindrason 4, Jón Bjarni Ólafsson 3, Jakob Martin Ásgeirsson 2, Jóhannes Berg Andrason 2, Ásbjörn Friðriksson 1, Ingvar Dagur Gunnarsson 1, Leonharð Þorgeir Harðarson 1, Garðar Ingi Sindrason 1.
Varin skot: Danéil Freyr Andrésson 15, 28,8%.
Mörk Gummersbach: Miro Schluroff 10, Elliði Snær Viðarsson 4, Lukas Blohme 4, Girogi Tskhovrebadze 4, Mykola Protsiuk 4, Ole Pregler 3, Kristjan Horzen 3, Milis Vujovoc 2, Kentin Mahé 2, Tilen Kodrin 1, Mathis Håseler 1, Dominik Kuzmanovic 1.
Varin skot: Dominik Kuzmanovic 13, 39,3% – Bertram Obling 1, 50%.
Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Handbolti.is var í Kaplakrika og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.