-Auglýsing-

Gummersbach fór illa með HC Erlangen á heimavelli

- Auglýsing -

Gummersbach, undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar vann stórsigur á HC Erlangen, 33:22, á heimavelli í kvöld í rífandi góðri stemningu eins og gefur að skilja en að vanda var uppselt í Schwalbe-Arena í Gummersbach. Gummersbach færðist upp í þriðja sæti með 12 stig eftir átta leiki. Erlangen er með sex stig eftir átta leiki í 11. sæti.

Elliði Snær Viðarsson lék ríflega helming leiktímans, jafnt í vörn sem sókn og skoraði þrjú mörk auk þess að vera öflugur í miðju varnarinnar.

Teitur fékk góðan tíma

Teitur Örn Einarsson lék nær allan síðari hálfleikinn með Gummersbach og skoraði eitt mark úr tveimur skotum úr hægra horninu. Teitur Örn var í hægri bakvarðarstöðunni í vörn og stóð sig eins og klettur. Honum var einu sinni vikið af leikvelli og var það nær eina hvíldin sem hann fékk í hálfleiknum.

Tóku strax frumkvæðið

HC Erlangen náði sér aldrei á strik. Leikmenn liðsins voru slegnir út af laginu strax í upphafi með öflugum varnarleik Gummersbach-liðsins. Allur sóknarleikur HC Erlangen gekk meira og minna í gegnum Viggó sem tókst ekki að sýna sínar bestu hliðar frekar en aðrir í liðinu. Viggó skoraði þrjú mörk. Hann lék í 45 mínútur. Fékk stutta hvíld í fyrri hálfleik og var síðan kallaður af vellinum 10-12 mínútum fyrir leikslok þegar ljóst var orðið að liðinu væru allar bjargir bannaðar.

Fékk tækifæri í lokin

Andri Már Rúnarsson fékk þrjár sóknir í fyrri hálfleik en virtist ekki vera sýnd næg þolinmæði af þjálfaranum. Þegar handklæðinu hafði verið kastað inn í hringinn síðasta stundarfjórðunginn var Andri Már sendur á vettvang á ný. Hann skoraði ekki mark í tveimur markskotum en tókst einu sinni með klókindum að vinna boltann af Elliða Snæ í hraðaupphlaupi.

Byrjuðu afar vel

Gummersbach-liðið byrjaði leikinn afar vel með sterkum varnarleik og hröðum sóknum. Slóg liðið öll vopn úr höndum Erlangen-liðsins sem hefur gert það gott á tímabilinu til þessa. Eftir 24 mínútur var staðan 14:7. Þegar fyrri hálfleikur var að baki var staðan, 18:12.

Von vaknaði um stund

Í upphafi síðari hálfleiks virtist vakna vonarglæta hjá Erlangen þegar liðið skoraði þrjú fyrstu mörkin, 18:15. Gummersbach-menn voru ekki lengi að setja undir lekann. Þeir svöruðu með fimm mörkum í röð, þar af tveimur í autt mark Erlangen, 20 mínútum fyrir leikslok var staðan, 23:15. Öll sund voru lokið fyrir Erlangen-liðið. Til að bæta gráu ofan á svart fyrir Erlangen þá var Bertram Obling markvörður Gummersbach í miklum ham, ekki síst í síðari hálfleik. Á sama tíma voru markverðir Erlangen ekki upp á sitt besta.

Fyrsti sigurinn hjá Arnóri Þór

Arnór Þór Gunnarsson og liðsmenn hans í Bergischer HC fögnuðu sínum fyrsta sigri í þýsku 1. deildinni í kvöld. Þeir lögðu Wetzlar á heimavelli, 35:28, eftir jafna stöðu að loknum fyrri hálfleik, 16:16. Sigurinn lyfti Bergischer HC upp úr neðsta sæti deildarinnar. Liðið er með tvö stig eftir sjö leiki. Leipzig færðist niður í neðsta sætið í staðinn.

Skiptur hlutur hjá Hauki og Ými

Haukur Þrastarson skoraði fimm mörk í 11 skotum og átti fjórar stoðsendingar er Rhein-Neckar Löwen og Göppingen skildu jöfn, 30:30, í Mannheim. Rhein-Neckar Löwen er í 7. sæti með 10 stig eftir átta leiki en þetta var annað jafntefli liðsins í röð.

Ýmir Örn Gíslason fyrirliði skoraði eitt mark og var einu sinni vísað af leikvelli í tvær mínútur. Göppingen er í sætinu fyrir neðan Rhein-Neckar Löwen með átta stig.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -