Leikmenn þýska liðsins Gummersbach fylgdu stórsigri sínum á HC Erlangen á heimavelli síðasta miðvikudag með öðru sigri á Göppingen á útivelli í dag, 36:24. Sigurinn færði Gummersbach, undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, upp að hlið Flensburg í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar. Hvort lið hefur 14 stig en Gummersbach hefur leikið einum leik fleira en Flensborgarliðið.
Eins og gegn Erlangen þá var Gummersbach-liðið með tögl og hagldir frá fyrstu mínútu. Í hálfleik var sjö marka munur, 18:11.
Elliði Snær Viðarsson skoraði fimm mörk í fimm skotum fyrir Gummersbach-liðið og Teitur Örn Einarsson skoraði tvö mörk í þremur skotum og var vikið í tvígang af leikvelli. Julian Köster var markahæstur með sjö mörk.
Ýmir Örn Gíslason fyrirliði Göppingen skoraði eitt mark auk þess að vera vísað í eitt skipti af leikvelli í tvær mínútur.
Oskar Sunnefeldt var markahæstur leikmanna Göppingen með sjö mörk.
Tíu marka sigur hjá Einari
Einar Þorsteinn Ólafsson og liðsfélagar í HSV Hamburg unnu öruggan sigur á Wetzlar á útivelli, 35:25, og lyftist upp í 10. sæti með sjö stig. Liðið er stigi á eftir Göppingen.
Staðan var jöfn í hálfleik, 14:14. Í síðari hálfleik héldu engin bönd leikmönnum HSV Hamburg, jafn í vörn sem sókn.
Einar Þorsteinn lék í vörn HSV Hamburg og lét til sín taka, m.a. var honum vikið einu sinni af leikvelli.
Staðan í deildinni: