- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gunnar og Gísli Felix í hópi þeirra bestu í sögu Ribe HK

Ribe-liðið tímabilið 1984/1985 á innkaupapoka verslunarkeðjunnar Kvickly. Á þessari óskýru mynd er Gunnar Gunnarsson annar frá hægri í efstu röð en Gísli Felix Bjarnason annar frá vinstri í neðstu röð.
- Auglýsing -

Handknattleiksmennirnir Gunnar Gunnarsson og Gísli Felix Bjarnason gátu sér gott orð í danska handknattleiknum á níunda áratug síðustu aldar þegar þeir lék með Ribe HK undir stjórn Anders Dahl Nielsen eins þekktasta handknattleiksmanns Danmerkur. Gunnar lék með liðinu frá 1983 til 1986 en Gísli Felix kom árið á eftir Gunnari 1984 og var markvörður liðsins í nokkur ár. Báðir komu til félagsins fyrir milligöngu Nielsen sem lék með KR í eitt ár upp úr 1980.


Sögu félagsins Ribe HK, sem síðar var sameinað Esbjerg og leikur nú undir nafni Ribe-Esbjerg, er haldið á lofti af vöskum hópi manna sem m.a. á tengsl við Ísland. Má þar m.a. nefna Jan Larsen, markvörð, sem lék bæði með KA og Þór á sínum tíma og er líklega þekktastur þeirra hér á landi.


Á dögunum stóð Larsen ásamt félaga sínum og blaðamönnum Jydske Vestkysten að vali á 25 bestu leikmönnum í sögu Ribe HK. Gunnar og Gísli Felix eru þar á meðal.

Gunnar varð annar

Gunnar er í öðru sæti yfir bestu vinstri skyttur í sögu liðsins. Gunnar var fjölhæfur leikmaður sem lék jafnt í skyttustöðunni og á miðjunni á móti Anders Dahl Nielsen þjálfara liðsins.


Sá sem tekinn var fram yfir Gunnar í stöðu vinstri skyttu er danski landsliðsmaðurinn Henrik Møllgaard sem nú leikur með Aalborg og hefur verið þekktastur á síðustu árum sem kjölfesta varnar danska landsliðsins sem orðið hefur heimsmeistari þrisvar í röð. Møllgaard lék með Ribe HK á sínum yngri árum en fór frá félaginu 2005, þá aðeins tvítugur.

Gísli Felix og Jeppesen

Gísli Felix er einnig háttskrifaður í sögu félagsins. Samvæmt valinu er hann annar besti markvörður í sögu Ribe HK. Mátti Gísli Felix lúta í lægra haldi fyrir goðsögninni Mogens Jeppesen sem var fremsti markvörður Dana á sinni tíð.

Bikarinn beint á RÚV

Kraftmikið starf var í kringum Ribe HK á níunda áratugnum með komu Anders Dahl Nielsen. Liðið vann sig upp úr næst efstu deild og lék í úrvalsdeildinni um árabil á þessum árum. Einnig lék Ribe HK til úrslita í dönsku bikarkeppninni veturinn 1984/1985. Var úrslitaleikurinn m.a. sendur út beint hér á landi á vegum RÚV. Er það væntanlega í eina skiptið sem úrslitaleikur dönsku bikarkeppninnar í handknattleik hefur ratað beint inn í stofur landsmanna meðan hér á landi var afar takmarkað framboð af sjónvarpsefni.


Handbolti.is fjallaði á síðasta ári um veru Íslendinganna hjá Ribe HK.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -