Hannes Jón Jónsson er hættur þjálfun þýska 2. deildarliðsins Bietigheim en til stóð að hann stýrði liðinu út keppnistímabilið. Af því verður ekki. Þetta kemur fram í yfirlýsingu á heimasíðu Bietigheim.
„Ég vildi gjarnan stýra liðinu til loka keppnistímabilsins enda leiktíðina á eins góðan hátt og mögulegt er. Hinsvegar hefur frammistaðan og úrslit síðustu leikja ekki verið viðunandi og þá er ef til vill betra að annar taki við og ljúki keppnistímabilinu,“ segir Hannes Jón m.a. í yfirlýsingunni um leið og hann þakkar fyrir samstarfið og óskar félaginu alls hins besta í framtíðinni.
Skammt er síðan Hannes Jón samdi við Alpla Hard í Austurríki um að taka við þjálfun þess í sumar eftir að forráðamenn Bietigheim kusu að ráða annan þjálfara til félagsins í sumar. Rétt rúm tvö ár eru liðin síðan Hannes Jón tók við þjálfun Bietigheim.
Markvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson leikur með Bietigheim. Nokkuð er síðan að ljóst varð að Aron Rafn rær einnig á önnur mið að loknu keppnistímabilinu í vor.
Bietigheim situr í 12. sæti af 19 liðum í 2. deildinni í Þýskalandi.