Forráðamenn þýska liðsins SC DHfK Leipzig eru sagðir vilja fá 100.000 evrur, jafnvirði nærri 15 milljóna kr. fyrir Andra Má Rúnarsson fari hann frá félaginu á næstu dögum. Frá þessu er sagt í SportBild í gær. Þar kemur ennfremur fram að HC Erlangen hafi sýnt áhuga á að styrkja lið sitt með Andra Má en kaupverðið standi aðeins í stjórnendum félagsins.
Andri Már á ár eftir af samningi sínu hjá Leipzig en vill gjarnan losna og róa á önnur mið eftir að föður hans, Rúnari Sigtryggssyni, var sagt upp störfum þjálfara um miðjan júni.
Ennfremur hefur komið fram að Andri Már hafi ákvæði í samningi sínum að hann geti farið ef faðir hans verði leystur undan störfum. Á móti kemur að félagið vill fá eitthvað fyrir sinn snúð og þar mun hnífurinn standa í kúnni um þessar mundir.
Fyrir síðustu helgi kom fram í þýskum fjölmiðlum að SC DHfK Leipzig hafi leitað sér aðstoðar lögmanna vegna málsins.
Framkvæmdastjóri SC DHfK Leipzig, Karsten Günther, hefur ekkert viljað tjá sig um málið.
Greiddu meira fyrir Viggó
Þegar HC Erlangen keypti Viggó Kristjánsson frá SC DHfK Leipzig í lok síðasta árs kom fram að Erlangen hafi reitt fram 250 þúsund evrur auk skipta á öðrum leikmönnum.
HC Erlangen er með bækistöðvar nærri Nürnberg í Þýskalandi. Liðið bjargaði sér naumlega frá falli úr 1. deild í vor. Var það ekki síst Viggó að þakka. Hann bar liðið nánast á herðum sér í síðustu leikjunum.