- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hafa verið byggðar upp of miklar væntingar?

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, segist vera ákaflega stoltur af íslenska landsliðinu, þeirri baráttu og vinnusemi sem leikmenn hafa lagt í leikina fjóra sem eru að baki á heimsmeistaramótinu sem stendur yfir í Egyptalandi.

Varnarleikurinn hefur verið stórkostlegur. Liðið hafi aðeins fengið á sig 23 mörk að meðaltali í leik, aðeins lið tveggja þjóða hafa fengið á sig færri mörk í mótinu. Hann segir hinsvegar að ekki hafi allt gengið sem skildi þegar kemur að sóknarleiknum. Í honum hafi of mörg opin færi farið forgörðum, einnig vítaköst. Þá hafi ekki tekist að nýta hraðaupphlaupin. Leikmenn virki spenntir. Hann hafi íhugað hvað valdi henni.


Guðmundur Þórður veltir fyrir sér hvort ástæðan sé sú að byggðar hafi verið upp of miklar væntingar með ungan leikmannahóp í mótun sem sé án reyndra  lykilmanna.

„Í leiknum við Sviss í gær fóru níu  dauðafæri forgörðum, tvö vítaköst voru misnotuð auk þess sem liðið gerði of mörg tæknimistök. Á sama tíma glímum við meiðsli hjá lykilmönnum liðsins. Janus Daði  var og er meiddur þótt vonir okkar stæðu til þess að hann gæti leikið með okkur í mótinu með því að stýra álaginu. Aron Pálmarsson er einnig meiddur og Alexander Petersson  var kýldur í fyrsta leiknum við Portúgal og datt út úr rytma og hefur ekki verið eins hann á að sér að vera. Þessi þrír menn voru lykilmenn á EM fyrir ári,“ segir Guðmundur Þórður og undirstrikar með áherslu.

Of mikil pressa á menn

„Á sama tíma er verið að setja mikla pressu á liðið af sjálfskipuðum sérfræðingum. Ég velti fyrir mér hvort mínir leikmenn hafi náð að höndla þá pressu. Það fylgir því pressa að leika fyrir íslenska landsliðið. Það vilja allir gera vel.

Á þessari stundu erum við með leikmenn sem er að stíga sín fyrstu skref, eru að leika sína fyrstu eða aðra stórkeppni. Ég með í höndunum ungt lið í mótun.  Eru menn skyndilega búnir að gleyma þeirri staðreynd?“ spyr Guðmundur Þórður af ákveðni.

Sigugleði eftir leikinn við Marokkó. Mynd/EPA

Stórkostleg vörn

„Við höfum leikið stórkostlega vörn allt mótið og fengið á okkur 23 mörk að meðaltali í leik og erum sennilega það lið sem hefur fengið á sig fæst mörk. Margt hefur gengið mjög vel.

Í gær misstigum við okkur illa þegar við nýttum ekki mörg mjög góð færi. Þess vegna skella menn skuldinni á sóknarleikinn. Það er ekkert auðvelt að brjóta sterkar varnir á bak aftur en þegar það tekst verður að nýta dauðafærin og vítaköstin. Það gekk því miður ekki eftir í gær.
 
Til viðbótar verðum við að fá mörk úr langskotum. Til þess verður skotgetan að vera fyrir hendi. Það er ekki alltaf hægt að fara í gegnum varnir andstæðingsins. Menn verða að átta sig á að þetta er staðan hjá okkur,“ sagði Guðmundur Þórður og bætir við.

Ró, yfirvegun og æðruleysi

„Ég er stoltur af liðinu og þeirri báráttu sem það hefur sýnt. Hún hefur verið til algjörrar fyrirmyndar. Kannski þurfum við að ná meiri ró, yfirvegun og æðruleysi í leik okkar. Engu er líkara en það sé stress og og óöryggi í okkur sem meðal annars sést þegar farið er í hraðaupphlaup. Þá kemur á menn hik, þeir fara að stinga boltanum niður. Ein ástæða þessa getur verið sú að búið er að magna upp væntingar á sama tíma og við glímum við að lykilmenn eru fjarri vegna meiðsla. Þessi umfjöllun er ekki eðlileg. Svona þvæla er sér íslenskt fyrirbæri,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari karla í handknattleik,  í samtali við handbolta.is í Kaíró í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -