Hákon Daði Styrmisson fór mikinn í dag þegar Eintracht Hagen sótti HC Oppenweiler/Backnang heim til suður Þýskalands og vann með 11 marka mun, 42:31. Leikurinn var liður í 7. umferð 2. deildar þýska handknattleiksins.
Hákon Daði skoraði 10 mörk, þrjú þeirra úr vítaköstum. Hákoni Daða brást bogalstin í tveimur skotum og því ljóst að hann átti stórleik enda markahæstur leikmanna Eintracht Hagen. Liðið er í öðru til þriðja sæti ásamt Hüttenberg með 11 stig, einu stigi á eftir Bietigheim.
Tjörvi Týr Gíslason fékk óvenju mörg tækifæri í sóknarleik Oppenweiler/Backnang að þessu sinni og nýtti þau vel. Hann skoraði fjögur mörk í sex skotum. Tjörvi Týr lét einnig til sín taka í vörninni, að vanda, og var m.a. einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur.
Reka lestina
Á sama tíma og Hákon Daði og liðsfélagar eru í toppbaráttu þá reka nýliðar Oppenweiler/Backnang lestina í 2. deild með tvö stig eftir sjö umferðir.