- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hákon Daði og félagar í fjórða sæti – áfram hallar undan fæti hjá Minden

Hákon Daði Styrmisson leikmaður Eintracht Hagen. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Eyjamaðurinn Hákon Daði Styrmisson innsiglaði sigur Eintracht Hagen í kvöld þegar liðið vann Ludwigshafen, 30:29, á heimavelli í 2. deild þýska handkattleiksins. Hákon Daði jók forskot Hagen í tvö mörk hálfri mínútu fyrir leikslok, 30:28, en leikmönnum Ludwigshafen tókst aðeins að skora einu sinni á þeim skamma tíma sem eftir var.

Alls skoraði Hákon Daði fimm mörk í leiknum, þar af eitt úr vítakasti. Hagen komst upp í fjórða sæti deildarinnar, alltént í bili, með 28 stig eftir 22 leiki. Lübbecke er einum leik og einu stigi á eftir.

Áfram hallar undan fæti hjá Minden

Hið fornfræga Íslendingalið, GWD Minden, má muna sinn fífil fegri ef svo má segja. Liðið er í næst neðsta sæti 2. deildar með 11 stig eftir 22 leiki. Virðist mikið þurfa til þess að leikmönnum liðsins takist að snúa gæfuhjólinu sér í vil. Sextánda tapið varð staðreynd í kvöld þegar leikmenn Elbflorenz mættu til Minden og unnu með 10 marka mun, 31:21. Þar af var um 11. tapið að ræða í síðustu 12 leikjum.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði eitt mark fyrir Minden og átti eina stoðsendingu. Sveinn Jóhannsson skoraði ekki mark fyrir Mindenliðið að þessu sinni.

Fall GWD Minden er hátt því það kvaddi efstu deild á síðasta vori og stefnir nú niður í 3. deild ef fram heldur sem horfir. Minden hefur aldrei leikið í 3. deild.

Tapaði í Dessau

Örn Vésteinsson Östenberg skoraði ekki mark fyrir VfL Lübeck-Schwartau í þriggja marka tapi liðsins í heimsókn til Dessau-Roßlauer HV 06, 32:29. Sigurinn var leikmönnum Dessau-Roßlauer HV 06 mikilvægur í botnbaráttunni. VfL Lübeck-Schwartau siglir lygnan sjó rétt fyrir ofan miðja töfluna með 21 stig.

Stöðuna í 2. deild þýska handknattleiksins og í fleiri deildum evrópska handknattleiksins er að finna hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -