- Auglýsing -
- Auglýsing -

Halldór Jóhann er á leiðinni til Danmerkur

Halldór Jóhann Sigfússon gefur skipanir til leikmanna Barein á HM 2021. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Halldór Jóhann Sigfússon, sem þjálfað hefur karlalið Selfoss undanfarin tvö ár, er að hverfa frá störfum hjá félaginu og flytja til Danmerkur, eftir því sem Visir.is segir frá í dag samkvæmt heimildum.


Heimildir handbolta.is herma að Halldór Jóhann verði annar tveggja þjálfara danska karlaliðsins Team Tvis Holstebro á Jótlandi. Jafnvel verður greint frá komu hans til félagsins strax á morgun. Annar þjálfara Holstebro, Claus Uhrenholt, hætti um nýliðin mánaðamót eftir áratuga starf hjá félaginu.


Halldór Jóhann tók við þjálfun Selfoss sumarið 2020 og skrifaði undir tveggja ára samning. Áður hafði Halldór Jóhann m.a. þjálfað FH um árabil en einnig kvennalið Fram og karlalið sama félags hluta af tímabilinu 2019/2020. Einnig stýrði Halldór Jóhann karlalandsliði Barein á HM 2021 í Egyptalandi og var aðstoðarþjálfari landsliðs Barein um skeið og þjálfaði einnig U20 ára landslið Barein 2019. Hér heima hefur Halldór Jóhann einnig komið nærri þjálfun yngri landsliða Íslands.


Óvíst er hver eða hverjir taka við þjálfun Selfoss af Halldóri Jóhanni. Handbolti.is hefur heyrt fleygt að að ekki verði leitað langt yfir skammt og að heimamenn taki við þjálfuninni.


Lið Team Tvis Holstebro hefur verið í fremstu röð úrvalsdeildarliða í Danmörku undanfarin ár ár. Liðið hafnaði að vísu í næst neðsta sæti deildarinnar í vor og slapp við fall eftir umspil. Leiktíðina 2020/2021 gekk mikið betur og hafnaði Holstebro þá í þriðja sæti og komst í undanúrslit um danska meistaratitilinn og hlaut bronsverðlaun. Þann vetur lék Óðinn Þór Ríkharðsson með Holstebro. Síðast varð Holstebro bikarmeistari 2017.


Nokkrir íslenskir handknattleiksmenn hafa verið í herbúðum liðsins undanfarin ár. Má þar m.a. nefna auk Óðins Þórs, Hafnfirðingana Sigurberg Sveinsson og Vigni Svavarsson.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -