- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Halldór Jóhann tekur við þjálfun Nordsjælland

Halldór Jóhann Sigfússon hefur skrifað undir tveggja ára samning við Nordsjælland. Mynd/Nordsjælland Håndbold
- Auglýsing -

Halldór Jóhann Sigfússon hefur verið ráðinn þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins Nordsjælland Håndbold frá og með 1. júlí nk. Samningurinn er til tveggja ára.

Voru mjög ákveðnir

„Forráðamenn Nordsjælland voru mjög ákveðnir að fá mig til starfa sem út af fyrir sig er mikill heiður. Það er ekki hlaupið að því að fá vinnu sem aðalþjálfari liðs í dönsku úrvalsdeildinni. Deildin er sterk og skemmtileg. Eftir hálft ár í Holstebro hef ég orðið heillaður af deildinni og öllu í kringum danskan handbolta,“ sagði Halldór Jóhann í samtali við handbolta.is fyrir stundu.

Nordsjælland er í 13. og næst neðsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir með níu stig eftir 18 leiki.
Halldór Jóhann tekur við starfinu af Simon Dahl sem verður arftaki Arnórs Atlasonar sem aðstoðarþjálfari Aalborg Håndbold. Arnór flytur sig þá yfir til Holstebro þar sem Halldór Jóhann er núna þjálfari við annan mann.

„Stjórnendur Nordsjælland töluðu fyrst við mig í lok nóvember eftir að Holstebro mætti liði þeirra. Eftir það gekk allt fljótt fyrir sig og ég skrifaði undir tveggja ára samning á milli jóla og nýárs,“ sagði Halldór Jóhann og bætir við að það hafi allan tímann legið fyrir að dvöl sín hjá Holstebro yrði bara til eins árs.

Byggir á uppöldum leikmönnum

„Nordsjællandliðið hentar mér afar vel. Það hefur yfir að ráða mörgum ungum leikmönnum og hefur auk þess afar góða akademíu, ekki ósvipaðri þeirri sem ég vann við á Selfossi. Það er ekkert launungarmál að félagið vill leggja áherslu á unga og uppalda leikmenn og byggja á þeim. Ég fell vel að þeirra mynd,“ sagði Halldór Jóhann sem flytur yfir á Sjáland í sumar frá Jótlandi.

Fékk góð meðmæli

„Ég ákvað að taka starfið hjá Holstebro síðasta sumar þótt það væri aðeins til eins árs og sjá til hverju það skilaði. Hjá félaginu ber ég mikla ábyrgð ásamt honum Sören. Gengi liðsins hefur verið mjög gott og mun betra en í fyrra. Eftir því hefur verið tekið. Stjórnendur Holstebro gáfu mér góð meðmæli til Nordsjælland sem var mikill heiður. Það sýnir að ég hef eitthvað gert rétt á síðasta hálfa ári,“ sagði Halldór Jóhann.

Fín staðsetning

„Ofan á annað þá er staðsetning liðsins mjög góð. Nordsjælland er í útjaðri Kaupmannahafnar sem hentar ágætlega með tvö börn á Íslandi og eitt í Stokkhólmi. Ég er bara spenntur að taka við starfinu þegar ég hef lokið mínum verkum hjá Holstebro,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon í samtali við handbolta.is.


Halldór Jóhann er þrautreyndur þjálfari sem m.a. hefur þjálfað Fram, FH og Selfoss hér heima auk yngri landsliða til viðbótar að hafa verið þjálfari landsliðs Barein á HM 2021.

Í það minnsta þrír Íslendingar verða aðalþjálfarar í dönsku úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili. Auk Halldórs Jóhanns hjá Nordsjælland tekur Arnór Atlason við sem aðalþjálfari Holstebro og Guðmundur Þórður Guðmundsson heldur áfram sínu uppbyggingarstarfi hjá Fredericia Håndboldklub.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -