- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Handboltinn er á leið í menntaskóla

Merki Þróttar.
- Auglýsing -

Þróttur er án aðstöðu fyrir innanhússboltagreinar sínar eftir að Laugardalshöll var lokað á dögunum í kjölfar þess að vatnslögn bilaði og heitt vatn lak yfir og undir keppnisgólfið. Þórir Hákonarson, íþróttastjóri Þróttar, sagði við handbolta.is að unnið væri hörðum höndum að því að greiða úr aðstöðuleysinu.

Útlit er fyrir að yngri flokkar handknattleiksdeildar Þróttar fái inni til æfinga í íþróttasal Menntaskólans við Sund fram á vorið eða þar til hægt verður aftur að æfa íþróttir á gólfi Laugardalshallar.

„Við getum að öllum líkindum bjargað æfingum yngri flokka með því að fara í íþróttahús MS en það er auðvitað miklu minna hús og hentar að minnsta kosti ekki öllum yngri flokkunum alltaf,“ sagði Þórir en Þróttur er ekki með meistaraflokka í handbolta á sínum snærum um þessar mundir.

„Blakið er hins vegar í miklu verri málum. Eitthvað geta yngri flokkarnir farið inn í MS-salinn eins og handboltinn. Meistaraflokkarnir fjórir eru í vandræðum en verið er að reyna að koma þeim fyrir í öðrum húsum. Niðurstaða liggur ekki fyrir en væntanlega þurfum við að að fara út úr Reykjavík með blakið. Við erum að fá tíma Digranesi, Kársnesskóla og Lindaskóla í Kópavogi, og svo fáum við einhverja tíma í íþróttahúsi fatlaðra. Það á eftir að púsla því betur saman. Íþróttabandalag Reykjavíkur er að gera allt sem hægt er til að koma því fyrir annars staðar og ég er nokkuð vongóður um að það takist með þokkalegum hætti,“ sagði Þórir Hákonarson, íþróttastjóri Þróttar við handbolta.is.

Framkvæmdir eru hafnar í Laugardalshöll en ljóst er að þær geta tekið marga mánuði, jafnvel hálft ár. Eins og kom fram á handbolti.is á dögunum þá er ekki nóg að skipta um parket á íþróttasalnum heldur verður að endurnýja undirstöður og klæðningu einnig vegna þess að allt varð gegnsósa af vatni við lekann sem átti sér stað yfir nótt. Heitt vatn lak, að því að talið er, í allt að 11 klukkustundir áður en hann uppgötvaðist.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -