Hlaðvarpsþátturinn Handboltinn okkar gaf út sinn 53. þátt í dag. Að þessu sinni var þátturinn í umsjón Jóa Lange, Gests Guðrúnarsonar og Arnars Gunnarssonar.
Þeir félagar fóru yfir leikina í 18. umferð í Olísdeild karla. Það helsta sem kom þeim á óvart í þessari umferð var hversu illa Þórsarar fóru með tækifærið að ná í 2 stig gegn Fram. Félagarnir telja að um hafi verið að ræða lykilleik fyrir Þórsara ef þeir ætluðu að halda sætinu sínu í Olísdeildinni. Þá telja þeir að Valsmenn séu vaknaðir. Eins og Valur leikur þessa dagana er liðið til alls líklegt í úrslitakeppninni.
Þátturinn endaði á eldheitum umræðum um stöðu handboltans á Akureyri. Gestur og Arnar hafa miklar skoðanir á hlutunum fyrir norðan. Þeir segja að eina vitið sé að aðeins verði eitt lið á Akureyri. Ganga Gestur og Arnar svo langt að vilja hreinlega að handknattleiksdeildir KA og Þórs verði lagðar niður og nýtt félag verði stofnað með yngriflokka- og meistaraflokks starfi.
Að lokum völdu þeir hvaða leikmenn koma til greina sem BK leikmaður 18. umferðar. Þeir sem tilnefndir eru, Lárus Helgi Ólafsson (Fram), Geir Guðmundsson (Haukum), Einar Þorsteinn Ólafsson (Valur), Theodór Sigurbjörnsson (ÍBV) og Adam Thorstensen (Stjörnunni).