„Ég verð bara að éta sokkinn. Sem betur fer voru okkur gefin nokkur pör snemma árs svo ég get tekið til óspilltra málanna,“ sagði Styrmir Sigurðsson einn umsjónarmanna Handkastsins fremur lúpulegur í nýjasta þættinum þegar hermd voru upp á hann ummæli frá upphitunarþætti Handkastsins að slæmt væri að Valur og FH mættust í annarri umferð en ekki þegar lengra yrði liðið á mótið og Valur líklegri til að geta veitt FH keppni.
Eins og mjólk við stofuhita
„Ummælin eldast eins vel og mjólk við stofuhita,“ skaut Teddi Ponsa inn í og nuddaði salti í sár Styrmis sem þótti eftir á að hyggja hafa skotið yfir markið með ummælum sínum sem Sérfræðingurinn hermdi upp á hann.
„Valsmenn voru hrikalega góðir í leiknum. Ég átti bara alls ekki von á þeim svona öflugum í upphafi keppnistímabils,“ sagði Styrmir sem hóf umræðuna um leik Vals og FH áður en Teddi og Sérfræðingurinn, Arnar Daði, viðruðu sínar skoðanir á leiknum og frammistöðu liðanna. Valur vann leikinn, 27:26.
Umræðan um Val hófst strax eftir 4 mínútur og 55 sekúndur í nýjasta þætti Handkastsins sem m.a. má nálgast hér fyrir neðan.