Ein reyndasta handknattleikskona Íslands og þótt víða væri leitað, Hanna Guðrún Stefánsdóttir, hefur framlengt samning sinn við Stjörnuna til næstu tveggja ára. Hanna Guðrún hefur leikið með Stjörnunni í 11 ár en ferill hennar í meistaraflokki spannar ríflega aldarfjórðung.
Hanna Guðrún lék með Haukum til ársins 2003 er hún gekk til liðs við Holstebro á Jótlandi. Eftir dvöl sína þar gekk Hanna Guðrún á ný til liðs við Hauka og lék með liði félagsins til 2010 að samdi hún við Stjörnuna en með liði félagsins hefur hún leikið síðan.
Hanna Guðrún varð Íslandsmeistari 1996, 1997, 2001, 2002 og 2005, varð bikarmeistari 1997, 2003, 2006, 2007, 2016 og 2017 og deildarmeistari 2002, 2005, 2009, 2014 og 2017.
Hanna Guðrún var valin leikmaður ársins 2003, 2005 og 2009, markahæsti leikmaðurinn 2003, 2005 og 2009 og hlaut háttvísisverðlaunin 2008 og 2009. Hún var valin Handknattleikskona árins 2009 og íþróttakona Hafnarfjarðar sama ár.
Um árabil lék Hanna Guðrún með íslenska landsliðinu og á að baki 142 landsleiki sem hún hefur skorað í 458 mörk til viðbótar við að vera með landsliðinu í þau þrjú skipti sem það hefur tekið þátt í lokakeppni stórmóta.
„Hún er mikil fyrirmynd og hefur átt ótrúlegan feril sem fáir eða jafnvel engin gæti leikið eftir. Hún gefur ekkert eftir og er enn í besta forminu og alltaf fyrst í sprettum á æfingum,“ segir m.a. í tilkynningu frá handknattleiksdeild Stjörnunnar í dag.