Hannes Jón Jónsson hefur framlengt samning sinn við austurríska handknattleiksliðið Alpla Hard. Frá þessu segir í tilkynningu félagsins í dag. Ekki kemur fram til hvers langs tíma til viðbótar nýi samningur Hannesar Jóns er.
Hannes Jón tók við þjálfun Alpla Hard sumarið 2021 eftir að hafa verið í tvö ár hjá Bietiegheim í Þýskalandi. Fáir Íslendingar þekkja betur til handknattleiksins í Austurríki. Auk þess að vera þjálfari Alpla Hard síðustu fjögur ár var Hannes Jón þjálfari West Wien frá 2019 til 2019 og um tíma einnig leikmaður félagsins.
Hannes Jón fór utan 2005 og lék í 11 ár sem atvinnumaður í Danmörku, Noregi, Þýskalandi og í Austurríki uns hann beindi kröftum sínum að þjálfun fyrir nærri áratug. Hann hefur alltaf haldið sér í þjálfun og hefur m.a. verið á skýrslu hjá Alpla Hard á yfirstandandi leiktíð.
Í vor hafnaði Alpla Hard í öðru sæti í úrslitakeppni um austurríska meistaratitilinn eftir að hafa orðið deildarmeistari. Nú um stundir situr liðið í öðru sæti efstu deildar með 22 stig eftir 14 leiki, stigi á eftir Füchse.
Einn íslenskur handknattleiksmaður leikur með Alpla Hard um þessar mundir, Valsarinn Tumi Steinn Rúnarsson. Hann kom til félagsins í sumar sem leið frá HSC 2000 Coburg.