Harpa Valey Gylfadóttir tryggði Selfossi sigur á Gróttu, 20:18, í síðasta ár leik ársins í Olísdeild kvenna í handknattleik í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í kvöld. Hún vann boltann af Gróttuliðinu þegar 20 sekúndur voru til leiksloka, rauk fram á völlinn með boltann og skoraði framhjá Önnu Karólínu Ingadóttur góðum markverði Gróttu sem hafði haldið liðinu inn í leiknum á lokamínútunum.
Selfoss verður þar með í fjórða sæti Olísdeildar kvenna næstu vikurnar með stigin sín átta í níu leikjum. Grótta er neðst með fjögur stig eins og ÍR sem situr í 7. sæti.
Næsti leikur í Olísdeild kvenna verður laugardaginn 4. janúar.
Selfoss var þremur mörkum yfir í hálfleik, 12:9. Fram eftir síðari hálfleik var Selfossliðið með fjögurra til fimm marka forskot. Gróttuliðið, sem vann ÍBV á síðasta laugardag, var ekki tilbúið að leggja árar í bát. Með fimm mörkum í röð jafnaði liðið metin, 16:16, þegar síðari hálfleikur var hálfnaður. Eftir það náði Selfossliðið frumkvæðinu á ný en Grótta var aldrei langt undan.
Liðin gerðu marga tæknifeila á síðasta stundarfjórðungi leiksins auk þess sem Anna Karólína í marki Gróttu og Cornelia Hermansson í marki Selfoss voru vel á verði. Fyrir vikið gekk treglega að skora. Grótta átti möguleika á að jafna metin á síðustu mínútu og tók leikhlé þegar 40 sekúndur voru til leiksloka. Harpa Valey reyndist útsjónarsöm í vörn Selfoss þegar hún komst inn í sendingu, geystist fram völlinn og skoraði sigurmarkið 15 sekúndum fyrir leikslok.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk Gróttu: Ída Margrét Stefánsdóttir 4, Katrín Anna Ásmundsdóttir 4, Tinna Valgerður Gísladóttir 3/2, Lilja Hrund Stefánsdóttir 2, Karlotta Óskarsdóttir 2, Katrín S Thorsteinsson 1, Daðey Ásta Hálfdánsdóttir 1, Arndís Áslaug Grímsdóttir 1.
Varin skot: Anna Karólína Ingadóttir 14/3, 41,2%.
Mörk Selfoss: Eva Lind Tyrfingsdóttir 5, Katla María Magnúsdóttir 5, Harpa Valey Gylfadóttir 5, Arna Kristín Einarsdóttir 2, Hulda Dís Þrastardóttir 2, Hulda Hrönn Bragadóttir 1.
Varin skot: Cornelia Linnea Hermansson 17, 50%.
Tölfræði HBStatz.