- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Haukar færðust skrefi nær úrslitakeppninni

Guðmundur Bragi Ástþórsson og félagar í Haukum mæta ÍBV í undanúrslitum Powerade-bikarsins í kvöld. Mynd/Kristján Orri Jóhannsson
- Auglýsing -

Haukar stigu skref í átt til sætis í úrslitakeppni Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld með öruggum sigri á Val, 36:31, í 20. umferð. Leikurinn fór fram í Origohöllinni. Haukar hafa nú 19 stig í áttunda sæti og eru fjórum stigum fyrir ofan Gróttu þegar tvær umferðir eru eftir. Til þess að hrifsa áttunda sætið af Haukum verða leikmenn Gróttu að vinna tvo síðustu leiki sína og Haukar að tapa báðum sínum á sama tíma. Grótta stendur betur að vígi í innbyrðisleikjum liðanna.


Flest bendir til þess að Valur og Haukar mætist í fyrstu umferð úrslitakeppninnar þegar tími hennar rennur upp.


Guðmundur Bragi Ástþórsson fór á kostum með Haukaliðinu í kvöld. Hann skoraði níu mörk í 11 skotum, átti 11 sköpuð færi. Hann tók leikinn yfir og réðu Valsmenn ekkert við piltinn sem hefur svo sannarlega jafnað sig af erfiðum meiðslum sem hrjáðu hann á fyrstu mánuðum ársins.


Eftir fremur jafnan fyrri hálfleik þá skoruðu leikmenn Hauka þrjú síðustu mörk fyrri hálfleiks og fóru með fjögurra marka forskot inn í hálfleikshléið, 18:14. Vængbrotið lið Vals átti erfitt uppdráttar í síðari hálfleik og varð að játa sig sigrað að þessu sinni. Efsta sætið er engu að síður í höndum Valsliðsins. Það verður ekki af því tekið, hvernig sem allt verkast í tveimur síðustu umferðunum.


Ungir leikmenn fengu tölvert að spreyta sig hjá Val að þessu sinni. Þar á meðal Ísak Logi Einarsson sem er einn af upprennandi leikmönnum félagsins. Hann er sonur Einar Gunnars Sigurðssonar sem gerði garðinn frægan með Selfossi og síðar Aftureldingu en einnig landsliðinu á tíunda áratugnum.

Hélt upp á nýjan samning

Fram vann fallna leikmenn Harðar í Úlfarsárdal 34:30. Staðan að loknum fyrri hálfleik var jöfn 18:18. Eins og stundum áður þá féll leikmönnum Harðar allur ketill í eld á endasprettinum.


Þorsteinn Gauti Hjálmarsson hélt upp á endurnýjaðan samning við Fram með því að skora 12 sinnum hjá markvörðum Harðar.


Fram færðist upp í fjórða sæti Olísdeildar.

Staðan í Olísdeild karla og næstu leikir.

Valur – Haukar 31:36 (14:18).
Mörk Vals: Jóel Bernburg 6, Arnór Snær Óskarsson 5, Magnús Óli Magnússon 4, Ísak Logi Einarsson 3, Tryggvi Garðar Jónsson 3, Bergur Elí Rúnarsson 2, Breki Hrafn Valdimarsson 2, Vignir Stefánsson 2, Aron Dagur Pálsson 1, Þorgils Jón Svölu Baldursson 1, Finnur Ingi Stefánsson 1, Stiven Tobar Valencia 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 14/1, 33,3%.
Mörk Hauka: Guðmundur Bragi Ástþórsson 9/2, Þráinn Orri Jónsson 6, Össur Haraldsson 5, Andri Már Rúnarsson 5, Heimir Óli Heimisson 4, Ólafur Ægir Ólafsson 3, Kristófer Máni Jónasson 2, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 1, Adam Haukur Baumruk 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 9/1, 26,5% – Matas Pranckevicus 0.

Fram – Hörður 34:30 (18:18).
Mörk Fram: Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 12, Kjartan Þór Júlíusson 6, Stefán Orri Arnalds 3, Kristófer Dagur Sigurðsson 3, Daníel Stefán Reynisson 2, Ólafur Brim Stefánsson 2, Ívar Logi Styrmisson 2, Luka Vukicevic 1, Reynir Þór Stefánsson 1, Magnús Öder Einarsson 1, Þorvaldur Tryggvason 1.
Varin skot: Lárus Helgi Ólafsson 11, Breki Hrafn Árnason 1.
Mörk Harðar: Guntis Pilpuks 10, Endijs Kusners 5, Leó Renaud-David 3, Alexander Tatarintsev 3, Jón Ómar Gíslason 3, Daníel Wale Adeleye 3, Axel Sveinsson 2, José Esteves Neto 1.
Varin skot: Stefán Freyr Jónsson 8.

Staðan í Olísdeild karla og næstu leikir.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -