Í upphafi árs 2008 var rekið mál fyrir dómstóli vegna tvískráðs marks á lið Fram í úrslitaleik deildarbikars HSÍ í karlaflokki á milli Fram og Hauka sem fram fór 27. desember 2007. Haukar töpuðu leiknum, 30:28, og kærðu framkvæmd leiksins. Gerðu Haukar kröfu um að úrslit leiksins yrðu ógild og leikinn yrði annar úrslitaleikur. Kröfu Hauka var hafnað á þeim forsendum að mistök dómara væru hluti af leiknum en skráning marka í leikjum er á ábyrgð dómara.
Margir líta til þess máls nú þegar Stjarnan hefur kært framkvæmd leiks Stjörnunnar og KA/Þórs sem fram fór í TM-höllinni á laugardaginn og fjallað hefur verið talsvert um á handbolta.is. Fyrir mistök var mark oftalið á KA/Þórsliðið í fyrri hálfleik viðureignarinnar sem KA/Þór vann með einu marki, 27:26. Krafa Stjörnunnar er að úrslit leiksins verði leiðrétt og þau verði skráð, 26:26, í stað 27:26, sigurs KA/Þórs.
Í málinu sem reis út af úrslitaleik deildarbikarsins í árslok 2007 voru ekki bornar brigður á að mistök hefðu átt sér stað við skráningu marksins sem sennilega átti sér stað snemma leiks. Hinsvegar er vísað til þess í niðurstöðu dómsins að mistök dómara séu hluti af leiknum hver sem þau eru. M.a. sé skráning marka á ábyrgð dómara og er þar vísað í grein 17.9 í leikreglum HSÍ. Mistök við skráningu marka flokkast þar með sem hluti leiksins. Ennfremur segir í niðurstöðu dómsins. „Ákvörðun dómara í hverjum leik eru endanleg og ekki kæranleg, af hvaða toga sem þau mistök geta verið.“
Þar með var fallist á rök Handknattleikssambands Íslands í málinu sem voru m.a. að með undirskrift sinni á leikskýrslu hafi dómarar „endanlega staðfest úrslit þau sem fram koma á leikskýrslu.“
Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ staðfestist í samtali við handbolta.is í dag að kæra Stjörnunnar sé komin inn á borð dómstóls HSÍ. KA/Þór og HSÍ hafi frest til fimmtudags til þess að skila inn greinargerð. Fljótlega að því loknu verður ákveðið hvernær málið verður dómtekið.
Róbert Geir sagði ennfremur að dómstóll HSÍ hafi viðtækar heimildir og geti m.a. breytt úrslitum, látið endurtaka leik í heild eða að hluta til. Eins geti dómstóllinn hafnað kröfum og látið úrslit standa.
Fyrir þá sem vilja kynna sér málið sem reis út af úrslitaleik deildarbikars karla 2007 er hægt að lesa um málið með því að smella hér.