- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hef aldrei kynnast annarri eins ástríðu fyrir handbolta og hjá KA

Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði sigurmark KA úr vítakasti í leik við Selfoss í KA-heimilinu á liðnum vetri. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Óðinn Þór Ríkharðsson kom heim á síðasta sumri eftir nokkurra ára veru í Danmörku. Gekk hann til liðs við KA. Óhætt er að segja að Óðinn Þór hafi sprungið út, farið á kostum með KA-liðinu. Þegar upp var staðið er Óðinn Þór markahæsti leikmaður Olísdeildar, vann sér inn sæti í landsliðinu og stóð sig afar vel í leikjunum við Austurríki í umspili í mars þegar leikið var um keppnisrétt á heimsmeistaramótinu á næsta ári. Í síðustu viku bætti Óðinn Þór einni rós í hnappagatið þegar hann var valinn besti leikmaður Olísdeildar á verðlaunahófi HSÍ.


„Ég er hrikalega ánægður með tímabilið mitt en um leið afar þakklátur fyrir að fá tækifæri til þess að leika fyrir KA og kynnast félaginu,“ sagði Óðinn Þór þegar handbolti.is heyrði í honum hljóðið eftir tímabilið góða. 

Einstakt og svo fallegt um leið

„Það er eitthvað sérstakt að leika fyrir KA. Ég hef aldrei kynnst annarri eins ástríðu fyrir handbolta á Íslandi og eigin félagi og þeirri sem skín af þeim sem vinna fyrir KA. Sjálfboðaliðar og starfsmenn félagsins brenna fyrir félagið. Fyrir vikið er starfið fyrir norðan algjörlega einstakt og svo fallegt um leið,“ sagði Óðinn Þór.

Leikmenn KA og stuðningsmenn fagna í undanúrslitaleik bikarkeppninnar í mars. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson


„Það kom mér á óvart hversu mjög menn brenna fyrir félagið. Ég vissi að menn væru í þessu nánast af líkama og sál. Ástríðan er bara ennþá meiri en ég reiknaði með. Menn eru óeigingjarnir á alla þá vinnu og þann tíma sem þeir leggja af mörkum til félagsins,“ sagði Óðinn Þór og bætir við að ástríðan smiti út frá sér til leikmanna og út á leikvöllinn. 

Smitast út á leikvöllinn

„Það hjálpaði okkur mikið og varð meðal annars til þess að við komumst í úrslitaleik bikarkeppninnar þar sem við vorum ekki langt frá því að vinna Valsmenn. Það var mikill heiður fyrir mig að fá tækifæri til þess taka þátt í fyrsta úrslitaleik KA í mörg ár,“ sagði Óðinn Þór. 

Óðinn Þór Ríkharðsson fremstur í hraðaupphlaupi. Mynd/J.L.Long


Spurður hvort hann hafi frískað upp á ferilinn með því að koma heima og ganga til liðs við KA eftir misjöfn nokkur ár í Danmörku segir Ómar Ingi að vafalaust megi færa rök fyrir því. 

Skemmtilegasta tímabilið

„Að fríska upp á er örugglega rétt hjá þér en fyrst og fremst bara gaman að koma heim og leika fyrir KA.  Það segir sig sjálft að þegar gaman er að spila þá gengur manni betur. Þótt mér hafi liðið vel annarstaðar þar sem ég hef verið þá er ég viss um að þetta tímabil er það skemmtilegasta sem ég hef tekið þátt í þótt það hafi ekki gengið eins vel fyrir áramót og vonir stóðu til,“ sagði Óðinn Þór sem lauk lofsorði á þjálfarateymi KA-liðsins sem hafi tekist að kveikja hressilega á mönnum eftir áramótin. 

Óðinn Þór fyrir miðri mynd með eina af viðurkenningum sem hann fékk fyrir frammistöðu sína með KA í Olísdeildinni í vetur. Með Óðni Þór á myndinni eru Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ t.v. og Reynir Stefánsson varaformaður t.h. Mynd/HSÍ

Viðurkenning fyrir alla

Óðinn Þór segir að þær viðurkenningar sem honum hafi hlotnast á síðustu dögum og vikum sé ekki aðeins uppskera hans heldur einnig liðsfélaganna og allra þeirra sem standa á bak við handknattleikinn hjá KA. Til viðbótar hafi hann fengið tækifæri með landsliðinu sem hannhefur reynt að nýta eins vel og honum var mögulegt enda ævinlega heiður að vera kallaður inn í landsliðið. 

Fór til Þýskalands

Þar með er ekki öll sagan sögð því í desember var Óðinn Þór lánaður í nokkrar vikur til þýska 2. deildarliðsins Gummersbach þar sem hann lék undir stjórn Guðjón Vals Sigurðssonar. „Það var mjög skemmtilegt tækifæri sem kom sér vafalaust vel fyrir alla. Auk þess var gaman að leika undir stjórn Guðjóns Vals og kynnast honum sem þjálfara. 

Óðinn Þór skorar eitt marka sinn í leikjunum við Austurríki í umspili fyrir HM í mars. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Eftir að ég kom til baka frá Gummersbach þá náðum við okkur vel á strik hjá KA svo það var svo sannarlega þess virði að koma aftur til félagsins. Fórum í úrslitaleik í bikarnum og töpuðum í oddaleik fyrir Haukum í átta liða úrslitum á Ásvöllum. Þegar öllu er á botninn hvolft held ég að við getum borið höfuðið hátt hjá KA eftir tímabilið,“ sagði Óðinn Þór.

Söðlar um í sumar

Þrátt fyrir allt þá hefur Óðinn Þór ákveðið að söðla um. Hann flytur reynslunni ríkari til Schaffhausen í Sviss í sumar og gengur til liðs við Kadetten sem varð í gærkvöld landsmeistari í 12. sinn á 17 árum. Hjá Kadetten bíða Óðins Þórs nýja áskoranir. 


„Það verður hörkugaman að koma til félagsins í sumar. Kadetten er með mjög gott  lið, leikur í flottri deild og er auk þess alltaf með í Evrópukeppni. Þetta er hrikalega spennandi hjá mjög sterku liði. Vonandi fær maður eins góða þjónustu sem leikmaður og maður fékk hjá KA á síðasta keppnistímabili,“ sagði Óðinn Þór Ríkharðsson handknattleiksmaður ársins í Olísdeild karla í handknattleik.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -