„Merkingarnar sem voru settar á búningana í Svíþjóð voru bara lélegar og flögnuðu af, ekki bara af annarri treyjunni heldur báðum. Því miður þá getur svona gerst þótt það eigi ekki að gerast. Ég hef aldrei lent í þessu áður,“ sagði Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ spurður út í ástæður þess að nafn og númer á búningi Sveins Jóhannssonar landsliðsmanns flögnuðu af í leiknum við Grænhöfðaeyjar á HM í gær. Varð það til þess að Sveinn mátti ekki leika með síðasta stundarfjórðunginn af síðari hálfleik.
Ónýtar merkingar í Svíþjóð
„Við vorum með tvær hvítar treyjur sem voru merktar Svíþjóð með nafni og númeri Sveins þegar hann kom til liðs við okkur. Því miður þá var sama sagan með þær báðar og við vorum ekki með þriðju hvítu treyjuna merkta í leiknum,“ sagði Róbert Geir ennfremur sem er miður sín vegna þessa máls en við því er ekkert að gera þegar svona er.
Fá merkingar – pressa sjálfir
„Við erum að fá merkingar sendar að heiman og ætlum að merkja sjálfir. Það er góð pressa í keppnishöllinni til þess að merkja treyjur og við fáum afnot af henni,“ segir Róbert Geir ennfremur.
Íslenska landsliðið leikur í bláum búningum á morgun gegn Kúbu en ekki hvítum eins og í gær. Bláar treyjur með nafni Sveins og númeri verða merktar í pressunni í keppnishöllinni á morgun og verður vandamálið þá úr sögunni, að sögn Róberts.
„Bláar treyjur sem merktar voru Sveini í Svíþjóð verða teknar úr umferð til þess að koma í veg fyrir þetta vandamál endurtaki sig,“ sagði Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ ákveðinni röddu þegar handbolti.is heyrði í honum í dag.