„Ég er auðvitað súr að falla úr keppni. Ég hefði viljað fara til Eyja í fjörið í oddaleik með fjórum eftirlitsmönnum,“ sagði Patrekur Jóhannesson þjálfari karlaliðs Stjörnunni glettinn á svip í samtali við handbolta.is í gærkvöld eftir að lið hans féll úr leik í átta liða úrslitum úrslitakeppni Olísdeildarinnar í handknattleik með öðru tapi fyrir ÍBV, að þessu sinni í TM-höllinni í Garðabæ, 27:23.
Menn gerðu sitt besta
„Ég get ekki annað en hrósað leikmönnum mínum eftir leikinn þótt við höfum tapað og við séum allir vonsviknir með að hafa ekki að minnsta kosti náði í oddaleik í þessu einvígi. Menn gerðu sitt besta í kvöld. Þeir sýndu flottann karakter eins og ég vildi sjá,“ sagði Patrekur sem náði ekki með lið sitt inn í undanúrslit eins og á síðasta ári.
Langur listi
Þar spilar m.a. inn í að Arnar Freyr Ársælsson, Brynjar Hólm Grétarsson, Leó Snær Pétursson, Pétur Árni Hauksson og Tandri Már Konráðsson eru allir fjarverandi vegna meiðsla. Auk þess fékk Starri Friðriksson rautt spjald eftir tæpar fimm mínútur í síðari leiknum. Starri var besti maður Stjörnunnar í fyrri viðureigninni við ÍBV á laugardaginn, skoraði níu mörk úr jafn mörgum skotum.
Hver blóðtakan á fætur annarri
„Við urðum fyrir áfalli í fyrsta leiknum þegar Pétur Árni meiddist og Hergeir fékk rautt spjald á fyrstu fimm mínútum. Spjald sem má svo sannarlega deila um hvort hafi verið rétt. Í kvöld verðum við á ný fyrir áfalli þegar Starri fékk rautt spjald eftir rúmar fjórar mínútur,“ sagði Patrekur sem sat m.a. eftir með einn örvhentan leikmanna auk þess sem aðalmennirnir í hjarta varnarinnar, Brynjar Hólm og Tandri Már, hafa verið frá vegna meiðsla vikum saman.
Tókum þátt í fjörinu
„Þetta var betri leikur en sá fyrri. Þrátt fyrir að menn hafi vantað var varnarleikurinn frábær og við tókum þátt í því fjöri sem þarf gegn Eyjamönnum. Það er alltaf líf í þeim. Þeir leika hart og það þarf að mæta þeim á sama hátt.
Þegar leið á seinni hálfleik þá fór aðeins að draga af okkur. Okkur brást bogalistin í opnum færum auk þess sem sóknarleikurinn varð erfiður gegn fimm einn vörn ÍBV með hægri handar mann á hægri vængnum. Í kvöld vorum við með sex eða sjö leikmenn meidda upp í stúku sem hafði sín áhrif þegar á líður og fer að reyna á breiddina,“ sagði Patrekur ennfremur.
Rúnar er frábæru formi
„Eyjamenn hafa breidd og Rúnar Kárason er frábær. Hann er bara í sama formi og hann var í Danmörku og Þýskalandi. Rúnar á skilið hrós fyrir að halda sér í frábæru formi eftir að hafa flutt heim.“
Tvö rauð spjöld á fyrstu fimm
„Það er engin skömm að tapa fyrir ÍBV, en það féll ekkert með okkur og án þess að ég ætli að kvarta mikið yfir dómgæslunni þá er mjög sérstakt að fá á sig tvö rauð spjöld eftir fimm mínútur í tveimur leikjum í röð. Auðvitað geta menn fundið stað í reglum fyrir ákvörðunum sínum en á móti kemur að ég bið menn að hafa tilfinningu fyrir leiknum. Þetta bætti ekki úr skák þegar við erum með margra leikmenn í meiðslum.“
Patrekur heldur áfram
Framundan hjá Stjörnunni er að sleikja sárin í skamman tíma og taka síðan upp þráðinn aftur og halda áfram. Nýtt keppnistímabil tekur við. Patrekur segir að einhverjar breytingar verði á leikmannahópinum eins og alltaf eigi sér stað á milli tímabila.
Margt hefur gengið vel
„Ég held áfram að þjálfa liðið. Það liggur fyrir. Þegar ég tók við 2020 þá gáfum við okkur þrjú ár til þess að gera ákveðnar breytingar og þoka Stjörnunni lengra. Mér finnst margt hafa gengið vel. Við erum nærri fjögurra liða úrslitum og höfum sýnt í vetur að við erum ekki langt frá bestu liðunum með því að vinna bæði ÍBV og Val.
Okkur hefur vantað meiri stöðugleika en höfum tekið skref í rétt átta. Okkur hefur ekki tekist að ná öllum markmiðum á undanförnum þremur árum en nokkrum,“ sagði Patrekur Jóhannesson þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í samtali við handbolta.is í gærkvöld.