Norðmaðurinn Glenn Solberg hefur skrifað undir nýjan samning við sænska handknattleikssambandið um þjálfun karlalandsliðsins og ríkjandi Evrópumeistara. Samningurinn gildir fram yfir Evrópumótið 2026 sem haldið verður í grannríkjunum Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
Solberg tók við þjálfun karlalandsliðs Svíþjóðar árið 2020 þegar Kristján Andrésson lét af störfum. Undir stjórn Solberg hreppti sænska landsliðið silfurverðlaun á HM 2021 og gullverðlaun á EM árið eftir. Á HM í upphafi þessa árs varð sænska landsliðið í fjórða sæti á heimavelli. Framundan er titilvörn á EM í Þýskalandi í upphafsmánuði næsta árs.
Svíinn Michael Apelgren, og þjálfari karlaliðs Sävehof, verður áfram aðstoðarþjálfari landsliðsins. Apelgren, sem leysti Martin Boquist af hólmi fyrir hálfu öðru ári, tekur við starfi þjálfara Pick Szeged í Ungverjalandi næsta sumar.
Solbeg var afbragðs handknattleiksmaður áður hann sneri sér að þjálfun og lék m.a bæði Þýskalandi og á Spáni auk heimalandsins. Solberg lék 122 landsleiki fyrir Noreg frá 1994 til 2008. Auk þess að vera landsliðsþjálfari Svíþjóðar er Solberg aðstoðarþjálfari karlaliðs Fjellhammer í Noregi og starfar þar með Svíanum Robert Hedin. Áður en Solberg var ráðinn til sænska handknattleikssambandsins stýrði hann smáliðinu St. Hallvard HK í fjögur ár.