- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hefur verið mikið fjör síðustu daga

Elliði Snær Viðarsson leikmaður Gummersbach og íslenska landsliðsins. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Það hefur verið mikið fjör síðustu daga eftir ljóst varð að við förum upp úr deildinni enda hefur það geggjaða þýðingu fyrir allan bæinn,“ sagði Elliði Snær Viðarsson leikmaður þýska 2. deildarliðsins Gummersbach en liðið tryggði sér á dögunum sæti í 1. deild á næsta keppnistímabili eftir þriggja ára veru í 2. deild. Gummersbach er eitt þekktasta og sigursælasta handknattleikslið Þýskalands. Hafði til að mynda aldrei leikið í 2. deild fyrr en sú varð raunin vorið 2019.


Undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, sem tók við þjálfun sumarið 2020, hefur blaðinu verið snúið við.

Nærri því að fara upp í fyrra

Fyrir utan að Gummersbachliðið er öruggt um flytjast upp á milli deildanna þá er það langt efst í deildinni, með 13 stiga forskot þegar fjórar umferðir er óleiknar.
Gummersbach var hársbreidd frá því að fara upp úr deildinni fyrir ári en mátti sjá á eftir liðsmönnum HSV Hamburg og ekki síst Nettelstedt-Lübbecke, grípa gæsina á endasprettinum.

Elliði Snær Viðarsson er 23 ára gamall Vestmannaeyingur. Hann lék með ÍBV fram til sumarsins 2020 að hann gekk til liðs við Gummersbach. Elliði Snær var í ÍBV-liðinu sem varð Íslands-, bikar- og deildarmeistari í handknattleik vorið 2018 og bikarmeistari 2020.
Elliði Snær tók þátt í sínu fyrsta stórmóti með A-landsliðinu á HM í Egyptalandi í janúar 2020. Síðan hefur hann átt sæti í landsliðinu og leikið alls 21 landsleik og skorað í þeim 26 mörk.
Elliði Snær er samningsbundinn Gummersbach fram á mitt næsta ár, 2023.

„Í ljós niðurstöðunnar í fyrra er það ennþá sætara að ná þessum áfanga tímanlega að þessu sinni. Það sýnir okkur í liðinu að við höfum verið að gera rétt og sækja fram í rétta átt. Við erum komnir með jafn mörg stig núna þegar fjórar umferðir eru eftir og liðin sem fóru upp fyrir ári,“ sagði Elliði Snær.

Mikill léttir

„Maður finnur á öllum að léttirinn er mikill að markinu er loksins náð að leika í fyrstu deild á nýjan leik,“ sagði Elliði Snær þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans. Elliði gekk til liðs við Gummersbach haustið 2020 og fyrir keppnistímabilið í haust sem leið bættist annar Eyjamaðurinn í hópinn, Hákon Daði Styrmisson sem varð fyrir því óláni að slíta krossband í hné í desember.

Elliði Snær léttur í bragði með félögum sínum í landsliðinu. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Nokkrar breytingar

„Kjarninn í liðinu hjá okkur er svipaður og í fyrra en það urðu engu að síður nokkrar breytingar. Tveir nýir markverðir bættust við fyrir tímabilið auk Hákons Daða í vinstra horninu. Þýski landsliðsmaðurinn Julian Köster kom um mitt tímabilið í fyrra til viðbótar við að þýskur unglingalandsliðsmaður frá Melsungen hefur verið á láni hjá okkur. Hann verður væntanlega líka með okkur á næsta vetri,“ sagði Elliði Snær.

Ætlum ekki að slá af

Gummersbach á fjóra leiki eftir áður en það fær sigurlaunin fyrir 2. deildina. Elliði Snær segir mikilvægt að halda einbeitingu og ljúka þeim leikjum sem eftir eru með sigri. Ekki komi til greina að missa dampinn þótt markmiðið sé í höfn. „Við eigum mjög erfiðan leik við Elbflorenz í Dresden á föstudaginn. Eins eru lið ennþá í baráttu á toppi og á botni svo það er mikilvægt fyrir okkur að slá ekkert af. Við ætlum að skila okkar.“

Draumur rætist

Elliði Snær segir að draumur rætist þegar hann leikur með Gummersbach á næsta keppnistímabili. „Það er ótrúlega spennandi að fá tækifærið sem bíður mín á næsta keppnistímabili að fá að leika í bestu deild í heiminum, eitthvað sem mann hefur dreymt um síðan maður var krakki. Þótt maður hafi fengið smjörþefinn af því að leika við marga bestu leikmenn heims með landsliðinu þá verður enn skemmtilegra að leika við þá í hverri viku á næsta tímabili.


Mitt persónulega markmið er halda áfram að styrkjast og verða samkeppnishæfur í bestu deild í heimi. Halda áfram á sama dampi og ég hef verið á,“ sagði Elliði Snær Viðarsson, leikmaður Gummersbach í Þýskalandi í samtali við handbolta.is

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -