- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Heiðmar og félagar brutu blað – Silfurliðið tapaði á heimavelli

Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Þýska handknattleiksliðið Hannover-Burgdorf braut blað í sögu sinni í gær með því að tryggja sér sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik. Hannover-Burgdorf vann sænska liðið Ystads IF, 30:21, í síðari leiknum sem fram fór í Hannover. Þýska liðið, sem tekur þátt í Evrópukeppni félagsliða í fyrsta sinn, vann einnig fyrri viðureignina sem fram fór í Svíþjóð fyrir viku, 33:28.

Íslenskur aðstoðarþjálfari

Heiðmar Felixson hefur verið aðstoðarþjálfari liðsins undanfarin tvö ár og þar af leiðandi starfað náið með Christian Prokop þjálfara og fyrrverandi þjálfara þýska karlalandsliðsins. Prokop hefur náð athyglisverðum árangri með Hannover-Burgdorf líkt og hann gerði með SC DHfK Leipzig á sínum tíma.

Svavar Ólafur Pétursson og Sigurður Hjörtur Þrastarson dæmdu leikinn í Hannover í gær og tókst þeim vel upp.

Silfurliðið féll úr leik

Óvænt úrslit urðu í rimmu spænska liðsins Granollers og CSM Constanta frá Rúmeníu í undankeppninni í gær þegar Constanta vann síðari viðureignina á Spáni, 25:22, eftir vítakeppni.

Granollers, sem lék til úrslita við Füchse Berlin í Evrópudeildinni í vor, vann fyrri viðureignina í Rúmeníu fyrir viku, 29:27. Vopnin snerust í höndum leikmanna Granollers í gær. Constanta tókst að drepa niður hraðann í leiknum og ráða lögum og lofum auk þess sem Dan Lucian Vasile markvörður fór hamförum.

Constanta vann, 20:18, eftir venjulegan leiktíma. Vegna þess að framlenging hefur verið felld niður í Evrópuleikjum var gripið til þess ráðs að knýja fram hreinar línur með vítakeppni þar sem brugðið getur til beggja vona. Rúmenska liðið hafði betur í vítakeppninni, 5:4.

Bragamen komust áfram

Portúgalska liðið ABC de Braga vann sér inn sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar með því að leggja Trimo Trebnje, 29:26, í Braga og samanlagt með eins marks mun, 58:57.

Arnór og Ýmir leika í dag

Tveir síðustu leikir undankeppni Evrópudeildar karla fara fram í dag. Íslendingar verða í eldlínunni í öðrum þeirra, með Rhein-Neckar Löwen þegar leikmenn Vardar Skopje koma í heimsókn.

Arnór Snær Óskarsson og Ýmir Örn Gíslasonar er leikmenn Rhein-Neckar Löwen. Í hinni viðureigninni eigast við Pfadi Winterthur og Aguas Santas Milaneza.

Rhein-Neckar Löwen stendur vel að vígi fyrir heimaleikinn eftir níu marka sigur, 34:25, í Skopje fyrir viku. Portúgalska liðið Aguas Santas Milaneza vann heimaleikinn við Pfadi Winterthur, 24:22.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -