Talið er fullvíst að Alexander Petersson, landsliðmaður í handknattleik, hafi ekki hlotið heilahristing vegna tveggja höfuðhögga sem hann fékk á upphafsmínútum viðureignar Íslands og Portúgal í undankeppni EM í Porto á miðvikudagskvöldið. Síðara höggið var þyngra en það fyrra en aðeins leið um mínúta á milli þeirra.
Alexander fór í ítarlega skoðun í gær. Að henni lokinni fullyrti læknir sem sá um skoðunina að Alexander hafi sloppið við heilahristing.
Ljóst er hinsvegar að Alexander á enn nokkuð í land með að ná sér eftir útreiðina sem hann hlaut hjá leikmönnum portúgalska liðsins. Ósennilegt verður að teljast að Alexander verði með íslenska landsliðinu í leiknum við Portúgal í Schenker-höllinni á Ásvöllum klukkan 16 á morgun. Þá mætast liðin öðru sinni í undankeppninni fyrir EM sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu eftir ár.
Vonir standa til að Alexander jafni sig og geti farið með íslenska landsliðinu til Egyptalands á mánudaginn. Þeir sem handbolti.is hefur talað við vegna Alexanders segja að vitanlega verði farið að öllu með gát. Alls ekki verði teflt á tvær hættur varðandi heilsufar Alexanders enda eru höfuðhögg, jafnvel þótt þau valdi ekki heilahristingi, alvarleg eins og dæmin sanna.