Camilla Herrem lék sinn síðasta landsleik á sunnudagskvöldið þegar Noregur vann Danmörk í úrslitaleik Evrópumóts kvenna í handknattleik. Herrem er 38 ára gömul og hefur leikið með norska landsliðinu í 18 ár, alls 332 landsleiki og skorað í þeim 951 mark. Herrem kvaddi um leið og Þórir Hergeirsson. Í samtali við norska fjölmiðla á gær sagði Þórir að Herrem hafi sagt sér frá því eftir Ólympíuleikana í ágúst að hún ætlaði sér að ljúka ferlinum með landsliðinu á EM í desember.
17 verðlaun með landsliðnu
Herrem vann sex gullverðlaun og ein silfurverðlaun á Evrópumótum með norska landsliðinu, þrenn gullverðlaun, tvenn silfurverðlaun og ein bronsverðlaun á heimsmeistaramótum og tvenn gullverðlaun og tvenn bronsverðlaun á Ólympíuleikum.
Aldrei meistari í Noregi
Herrem hefur aldrei orðið norskur meistari en einu sinni orðið norskur bikarmeistari Hún vann hinsvegar meistara- og bikarmeistaratitil með Vardar í Norður Makedóníu 2017.

Tvö börn
Á þessu tímabili hefur Herrem einnig eignast tvö börn, 2018 og 2023, með eiginmanni sínum, Steffen Stegavik fyrrverandi handknattleiksmanni og núverandi þjálfara. Aðeins 24 dögum eftir fæðingu barnsins í mars 2023 var Herrem mætt í leik með Sola gegn Storhamar í norsku úrvalsdeildinni.
Trygg uppeldisfélaginu
Herrem hefur leikið með uppeldisfélagi sínu Sola frá Stafangri frá 2017 en hún lék árum saman með félagsliðum í Danmörku, Rúmeníu og Norður Makedóníu. Liðin er 22 ár síðan Herrem lék sinn fyrsta leik í norsku úrvalsdeildinni.
Herbergisfélaginn heldur áfram
Herrem hefur árum saman verið herbergisfélagi Katrine Lunde á keppnisferðum norska landsliðsins. Lunde, sem er sex árum eldri, hefur í hyggju að halda áfram að leika með norska landsliðinu.