Hildur Þorgeirsdóttir fyrrverandi landsliðskona hefur dregið fram keppnisskóna eða hreinlega keypt sér nýja og lék í kvöld með uppeldisfélaginu, FH, gegn Fjölni/Fylki í Grill 66-deildinni. Fjórtán ár eru liðin síðan Hildur lék síðast með FH á Íslandsmótinu í handknattleik.
Hildur ákvað að draga saman seglin á síðasta vori eftir að hafa orðið Íslandsmeistari í þriðja sinn með Fram og hugðist hætta handknattleik. Römm er sú taug er rekka dregur föðurtúna til, segir í ljóðinu.
Hildur hefur æft með FH í vetur og fékk félagaskipti yfir í raðir Hafnarfjarðarliðsins áður en félagaskiptafresturinn rann út um síðustu mánaðamót. Hildur skoraði fimm mörk í kvöld. Ekki þarf að fjölyrða um hvílíkur búhnykkur það er fyrir FH-liðið að fá Hildi inn í hópinn með alla sína reynslu.
Hildur lék síðast með FH árið 2009 en skipti þá um sumarið til Fram og lék með liði félagsins í tvö ár áður en við tók fjögurra ára tímabil hjá Blomberg-Lippe og Koblenz í Þýskalandi. Þegar Hildur flutti heim 2015 gekk hún á ný til liðs við Fram.