Vonir standa til þess að hægt verði að opna eldri hluta Laugardalshallar í byrjun október og hefja þá æfingar og keppni í salnum á nýjan leik. Frá þessu er greint í ýtarlega í pappírsútgáfu Morgunblaðsins í dag.
Þrátt fyrir að það hilli undir að Laugardalshöllin verði opnuð á ný er ólíklegt að þrír landsleikir sem fram eiga að fara í október og nóvember fari þar fram.
Nærri tvö ár frá vatnsleka
Snemma í október verða liðnir 23 mánuðir síðan vatnsrör brast í Höllinni með þeim afleiðingum að þúsundir lítra af heitu vatni láku klukkustundum saman að nóttu til niður á gólfið og undir það. Ekki var annað í boði en að ráðast í miklar endurbætur sem svo sannarlega hafa tekið sinn tíma. Upphaflega stóðu vonir til þess að viðgerð tæki sex til átta mánuði, því næst var talað um eitt ár en þau verða sennilega nærri tvö þegar upp verður staðið.
Ljón í veginum
Útboð vegna ýmissa verkþátta gengu ekki sem skildi. Þau voru ýmist kærð eða þótt of dýr. Fleiri ljón voru í veginum. Endanlegur kostnaður við endurbætur og viðgerðir liggur ekki fyrir en hluti þeirra verður greiddur af tryggingum.
Fram kemur í Morgunblaðinu að lokið hafi verið við að legga parket á keppnisgólfið og að lökkun sé langt komin. Þar á eftir verður gólfflöturinn merktur fyrir ýmsar íþróttagreinar. Er þar um að ræða nákvæmnisverk sem ekki má kasta höndum til.
Landsleikir í október og nóvember
Framundan eru þrír landsleikir í handknattleik. Karlalandsliðið mætir ísraelska landsliðinu hér heima 12. október í undankeppni EM 2024. Í byrjun nóvember leikur kvennalandsliðið tvo við Ísrael í forkeppni HM 2023. Útlit er fyrir að allir leikirnir fari fram á Ásvöllum eins og aðrir heimaleiki íslensku landsliðina eftir 4. nóvember 2020. Sennilega verða fyrstu landsleikirnir í handknattleik ekki í Höllinni fyrr en í mars að þráðurinn verður tekinn upp í undankeppni EM2024.
Sýning og fundur
Eftir því sem næst verður komst verða fyrstu viðburðirnir í endurbættri Laugardalshöll sjávarútvegsýning og landsfundur Sjálfstæðisflokksins.