- Auglýsing -
- Auglýsing -

HK hársbreidd frá stigi gegn Fram

Tekjur af miða- og veitingasölu hefur hrunið enda sárafáir sem hafa komið á leiki í fyrstu umferðum Olís- og Grill 66-deildanna. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Fram vann nauman sigur á HK, 25:24, í hörkuskemmtilegum leik í Olísdeild kvenna í handknattleik í 1.umferð deildarinnar í íþróttahúsi Fram í kvöld. Fram var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 14:10, en sigurinn stóð tæpt í lokin þar sem HK átti síðustu sóknina og gat jafnað metin. En allt kom fyrir ekki.

Fram var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi en HK-liðið var aldrei langt undan og náði alltaf með reglubundnum hætti að koma í gagnárásir og minnka muninn úr fjórum mörkum niður í tvö. Um tíma og í einu áhlaupinu leit út fyrir að HK ætlaði að velgja Fram-liðinu undir uggum þegar á leið fyrri hálfleikinn þegar munurinn var kominn niður í 9:7 og margt gekk Fram-liðinu í mót. Þá brá Stefán Arnarsson á það ráð að taka leikhlé. Í framhaldinu skoraði Fram-liðið þrjú mörk í röð og komast fimm mörkum yfir, 12:7. Staðan í hálfleik var, 14:10.

HK byrjaði síðar hálfleik af miklum krafti og náði fljótlega að minnka forskot Fram niður í eitt mark svo úr varð spennandi leikur. Þegar síðari hálfleikur var hálfnaður munaði aðeins einu marki, 20:19. Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir náði síðan að jafna metin fyrir HK, 20:20, þegar 12 mínútur voru til leiksloka. Var það vel við hæfi því hún fór á kostum í leiknum eins og Díana Kristín Sigmarsdóttir sem átti hvern þrumufleyginn á fætur öðrum í mark Fram-liðsins.

Ragnheiður Júlíusdóttir kom Fram tveimur mörkum yfir úr vítakasti, 22:20, þegar níu mínútur lifðu af leiktímanum. Vítakast sem Hildur Þorgeirsdóttir hafði unnið af harðfylgi. Fram átti möguleika á að ná fjögurra marka forskoti, 24:20, en skot Steinunnar af línu fór í slána. Staðan var erfið fyrir HK sem gafst þó ekki upp þótt slæmar ákvarðanir í sumum sóknanna þyngdu róðurinn.

Sigríður Hauksdóttir minnkað forskot Fram í eitt mark, 24:23, með góðu marki úr horninu tveimur mínútu fyrir leikslok og bætti upp fyrir að bregast bogalistin í sókninni á undan. Ragnheiður Júlíusdóttir kom Fram aftur tveimur mörkum yfir, 25:23, með sínu tólfta marki en HK-liðið gafst ekki upp og kom foskoti Fram á ný í eitt mark, 25:24, þegar liðlega mínúta var eftir af leiktímanum.

Skot Ragnheiðar hálfri mínútu fyrir leikslok fór framhjá marki HK. Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari HK, tók umsvifalaust leikhlé og lagði á ráðin. Síðasta sókn HK rann út í sandinn. Illa gekk að opna vörn Fram og misheppnuð sending Valgerðar í hægra hornið á síðustu sekúndum rataði ekki í réttar hendur. Fram slapp með skrekkinn.

Ragnheiður skoraði 12 mörk fyrir Fram, Perla Ruth Albertsdóttir, Steinunn Björnsdóttir, Kristrún Steinþórsdóttir og Lena Margrét Valdimarsdóttir skoruðu þrjú mörk hver.

Kartrín Ósk Magnúsdóttir varði 12 skot í marki Fram.

Díana Kristín Sigmarsdóttir skoraði sex mörk fyrir HK og var markhæst. Kristín Guðmundsdóttir og Valgerður Ýr skoruðu fjögur mörk hvor. 

Sara Sif Helgadóttir varði 10 skot í marki HK.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -