HK vann stórsigur á Víkingi í Grill 66-deild karla í handknattleik í Kórnum í upphafsleik 3. umferðar, 31:22. Eins og tölurnar gefa til kynna þá var aldrei spenna í leiknum. HK var með átta marka forskot í hálfleik, 15:7, og réði lögum og löfum frá upphafi til enda.
Þetta var fyrsta tap Víkinga í deildinni en um leið annar sigurleikur HK-inga sem unnu Selfoss U í fyrstu umferð en töpuðu síðan fyrir Fjölni í hörkuleik um síðustu helgi.
Jóhann Birgir Ingvarsson skoraði níu mörk fyrir HK-liðið í 11 skotum. Kristján Pétur Barðason skoraði sex mörk og Einar Pétur Pétursson fimm.
Davíð Hlíðdal Svansson varði 9 skot, 32,1%.
Hjalti Már Hjaltason og Arnar Steinn Arnarsson skoruðu fimm mörk hvor fyrir Víking. Egidijus Mikalonis skoraði fjögur mörk.
Bjarki Garðarsson varði 8 skot, 30,8% og Sverrir Andrésson varði 2 skot, 12.5%.