- Auglýsing -
- Auglýsing -

HM: Aðalatriðið er að hefjast

Forsvarsmenn Alþjóða handknattleikssambandsins þola engin lausatök þegar kemur að covid á HM 2023. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Þá fer stundin að renna upp sem leikmenn og þjálfarar íslenska landsliðsins í handknattleik og aðstoðarmenn hafa beðið eftir og búið sig undir upp á síðkastið. Fyrsti leikur á heimsmeistaramótinu fer fram í kvöld þegar síðasti hlutinn í þríleik Íslendinga og Portúgala á handboltavellinum fer fram. Ekki er annað vitað en allt sér klárt. Menn hafa lagt nótt við dag við undirbúning fyrir þátttöku Íslands í HM karla í 21. sinn. Næst er að láta á reyna og sjá til hvað verða vill. Allir leikmenn, þjálfarar og aðstoðarmenn eru reiðubúnir. Þeir bíða þess nú að flautað verður til leiks þótt víst sé að fram á síðustu mínútu verði hugur manna eingöngu við komandi verkefni.


Leikurinn í kvöld er mikilvægur fyrir bæði lið. Þau er talin öflugust í riðlinum. Ekki er ósennilegt að sigurliðið í kvöld fari með fullt hús stiga áfram í milliriðil þótt ekki sé hægt að slá neinu föstu. Áður en lengra er haldið er þó rétt að muna að leikurinn í kvöld er aðalmálið. Það sem tekur við í annarri og þriðju umferð á laugardaginn og á mánudaginn eru önnur verkefni sem verður að leysa þegar að þeim kemur. Eitt verki í einu, eins og faðir sögupersónunarinnar Einars Áskels segir.

Mikið hefur gengið á

Mikið hefur gengið á kringum mótið vegna kórónuveirunnar. Tvö lið heltust úr lestinni áður en þau komu til Egyptalands og það þriðja, landslið Grænhöfðaeyja, stendur veikum fótum en er mætt til Kaíró. Beðið er niðurstöðu úr skimun sem hópurinn fór í við komuna til landsins. Meðan dvelja menn í sóttkví. Hollendingar bíða spenntir niðurstöðunnar. Þeir eru tilbúnir að stökkva til verði Grænhöfðeyingar að hrökklast heim. Ekkert smit hefur komið upp innan leikmannahópa þeirra liða sem mætt eru til leiks.

Hafa ekki sömu sögu að segja

Veiran er skiljanlega yfirum og allt í kring. Norðmenn, Danir, Þjóðverjar og Austurríkismenn eru afar ósáttir við flest það sem að þeim snýr hér í Kaíró. Allt annað er upp á teningnum á hótelinu sem íslenska landsliðið býr á ásamt fleiri landsliðum og nokkrum hópi fjölmiðlamanna. Sóttvarnir eru í hávegum hafðar. Hér sést vart maður án grímu, nema þá að hann sitji í hótelgarðinu við borð með kaffibolla. Og þó varla. Starfsfólk virðist gæta vel að sér auk þess að búa í „búbblu“ til 31. janúar. Ekkert þeirra fer út af hótelsvæðinu, sem er nánast víggirt, frá 7. til 31. janúar. Þeir fáu fjölmiðlamenn sem hér eru borða á öðrum stað en leikmenn, nánast í annarri byggingu, eru skermaðir af.

Enginn hefur kvartað

Ég tók eftir því í blaði heima í morgun að skrifað var að enginn íslensku leikmannanna hafi kvartað yfir sóttvörnum eða dapurlegum aðbúnaði, að minnsta kosti opinberlega. Því er til að svara að þar sem Íslendingarnir búa meðan riðlakeppnin fer fram er er ekki yfir neinu að kvarta þegar kemur að sóttvörnum, hreinlæti og þjónustu. Það er ástæðan fyrir að enginn úr íslenska hópnum hefur kvartað, hvorki opinberlega né á bak við tjöldin.

Eins og grár köttur

Sömu sögu er að segja um keppnishúsin tvö sem íslenska landsliðið hefur æft í. Í frábærum líkamræktarsal hótelsins, sem leikmenn hafa aðgang að, er grímu- og hanskaklætt fólk á þönum með klúta og spritt. Læknir íslenska landsliðsins, Örnólfur Valdimarsson, hefur verið eins og grár köttur í eldhúsinu og fylgst með því sem þar fer fram, kynnt sér hreinlæti og aðbúnað með reglulegum heimsóknum. Ekki að ástæðulausu því matareitrun er sígilt vandamál í Egyptalandi meðal ferðamanna og hefur leikið margan manninn grátt, ekki síður en kórónuveiran.

Laus úr vistinni

Að lokum í þessum langa pistli mínum er þess að geta að ég losnaði úr sóttkví í gærdag eftir að hafa farið í tvö PCR-test á 12 tímum eftir komuna til Kaíró. Næsta skimun stendur fyrir dyrum á morgun. Reyndar var ég ræstur út í þriðju skimun í bítið í gær en hún reyndist ekki nauðsynleg þegar til átti að taka.

Óvæntur viðgerðamaður

Hiti er kominn á herbergið eftir að ég hafði búið við nánast fimbulkulda í hálfan annan sólarhring. Loksins rak á fjörurnar starfsmann sem gat lagað loftkælinguna.


Tveir viðgerðamenn höfðu komið með nokkurra klukkustunda millibili vopnaðir stigum og skrúfjárnum en ekki lánast að leysa gátuna þrátt fyrir spekingsvip, mikið plís og ok. Gátuna leysti þjónn á hótelinu sem færði mér kaffi og vatn upp úr hádegi í gær. Honum kom spánskt, eða egypskt, fyrir sjónir að mæta kappklæddum manni í dyragættnni. Spurði hann hvort ég væri veikur. Ég sagðist vera við hestaheilsu, alltént ennþá, en loftkælingin væri að gera mér gramt í geði. Þjóninum tókst að tjónka við loftkælinguna svo nú er lífvænlegt í herberginu án þess að vera í vetrarklæðnaði. Þökk sé honum.


Hér á St Regis Almasa Royal Palace er yfir engu að kvarta í aðbúnaði og sóttvörnum sem betur fer. Íslenski landsliðshóprinn getur sem betur fer einbeitt sér að því sem er tilgangur verunnar hér við Nílarbakka í landi faróa. Hinsvegar verður kvartið ekki sparað gefist ástæða til.

Ívar Benediktsson, [email protected]

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -