- Auglýsing -
- Auglýsing -

HM: Alexander Petersson

Alexander í búningi íslenska landsliðsins fyrir HM 2021. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Handbolti.is heldur áfram að kynna þá leikmenn sem keppa fyrir Íslands hönd á HM í handknattleik sem hefst í Egyptalandi 13. janúar. Flautað verður til fyrsta leiks Íslands á mótinu daginn eftir en þá mætir íslenska landsliðið Portúgölum.
Tuttugu leikmenn eru í landsliðshópnum og er reiknað með að þeir fari til Egyptalands þótt aðeins megi tefla 16 leikmönnum fram í hverjum leik.

Næstur í röðinni er Alexander Petersson. Hlekkur á fyrri kynningar er að finna neðst í þessari grein og svo verður þar til kynningum lýkur um það bil þegar flautað verður til leiks á HM í Egyptalandi. Handbolti.is verður í Kaíró og mun fylgjast með keppninni eftir föngum og ströngustu sóttvörnum.

Alexander Petersson

Alexander er 40 ára gamall og tekur nú þátt í HM í fyrsta sinn í sex ár. Alexander er fæddur í Ríga í Lettlandi 2. júlí 1980. Hann kom til Íslands 1998 í þeim tilgangi að æfa og leika með GróttuKR. Hann settist hér að og lék með GróttuKR fram til ársins 2003. Sama ár fékk Alexander íslenskan ríkisborgararétt og varð gjaldgengur með íslenska landsliðinu tveimur árum síðar. Ástæðan fyrir biðinni var sú að hann hafði leikið landsleiki fyrir Lettland.

Um leið og Alexander varð gjaldgengur með íslenska landsliðinu gaf hann kost á sér. Fyrsti leikur hans með landsliðinu var í Borås í Svíþjóð gegn sænska landsliðinu 5. janúar 2005. Hans fyrsta stórmót var HM í Túnis 2005. Síðan er stórmótin orðin 12, þar af fjögur heimsmeistaramót sem hann hefur skoraði í 144 mörk í 30 leikjum. Alls á Alexander 182 landsleiki að baki. Landsliðsmörkin eru 719.

Alexander var markahæsti leikmaður landsliðsins á HM 2011 í Svíþjóð með 53 mörk í níu leikjum. Í mótslok var Alexander valinn í úrvalslið heimsmeistaramótsins. 


Alexander gekk til liðs við Düsseldorf 2003 og hefur síðan leikið með þýskum félagsliðum í efstu deild. Hann var hjá Grosswallstadt 2005 til 2007, Flensburg 2007 til 2010 og hjá Füchse Berlin 2010 til 2012. Frá 2012 hefur Alexander leikið með Rhein-Neckar Löwen. Með RN-Löwen varð Alexander þýskur meistari 2016 og 2017, bikarmeistari 2018 og EHF-bikarmeistari 2013. 

Alexander var kjörinn íþróttmaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna fyrir árið 2010. Hann var valinn besti sóknarmaður Íslandsmótins 2003.

Alexander vann til silf­ur­verðlauna með ís­lenska landsliðinu á Ólymp­íu­leik­un­um í Pek­ing árið 2008 og til bronsverðlauna á Evr­ópu­mót­inu í Aust­ur­ríki tveimur árum síðar.

Eiginkona Alexanders, Eivor Pála Blöndal, á að baki 13 A-landsleiki í handknattleik.

Fyrri kynningar: Ágúst Elí BjörgvinssonBjörgvin Páll GústavssonViktor Gísli HallgrímssonBjarki Már ElíssonÓlafur Andrés Guðmundsson, Elvar Örn Jónsson, Janus Daði Smárason.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -