Rússar eru skiljanlega óánægðir með að hafa ekki komst í undanúrslit á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik. Rússneska landsliðið féll úr keppni í gær eftir tap fyrri norska landsliðinu í átta liða úrslitum. Þeir kenna ýmist þjálfaranum um eða fyrirkomulagi mótsins.
Rússneska landsliðið lék til úrslita á Ólympíuleikunum í sumar en síðan hafa orðið þjálfaraskipti auk þess sem hið minnsta tveir sterkir leikmennn hafa hætt keppni.
Evgeny Trefilov, fyrrverandi landsliðsþjálfari, skellir skuldinni á Lyudmila Bodnieva, landsliðþjálfara. Skal engan sérstaklega undra því grunnt er á því góða milli hans og Bodnieva. Sú síðarnefnda óskaði eftir því að Trefilov héldi sig heima í Rússlandi á meðan mótið færi fram og var orðið við því. Trefilov hafi m.a. sýnt það á Ólympíuleikunum í sumar að hann geti ekki haldið sig til hlés.
Trefilov segir Bodnievu ekki hafa verið með réttu svörin auk þess sem leikur liðsins við Norðmenn í átta liða úrslitum í gær hafi verið slakur, liðsheild og lausnir hafi skort.
Sergey Shishkarev, forseti rússneska handknattleikssambandsins og velgjörðarmaður Trefilovs, segir að sýna verði Bodnieva þolinmæði. Hún sé að byggja upp nýtt lið. Það taki tíma. Shishkarev segist vera stoltur af liðinu.
Shishkarev vill skella skuldinni á fyrirkomulag mótsins að rússneska liðið náði ekki í undanúrslit. Riðlarnir og milliriðlarnir krossist ekki á sama hátt í HM karla í janúar. Fyrir vikið hafi fjögur efstu liðin á Ólympíuleikunum í sumar verið á öðrum ásnum í átta liða úrslitum á sama tíma og veikari landslið eins og Spánn, Brasilía, Þýskaland voru á hinum ásnum.
Ákveðið var í ágúst eftir að dregið var í riðla að breyta fyrirkomulaginu á því hvernig riðlarnir og milliriðlarnir krossuðu. Alþjóða handknattleikssambandið og mótshaldarar segja að það hafi verið gert til að draga úr ferðalögum. Aðrir halda því fram að breytingin hafi verið gerð til þess að auðvelda spænska landsliðinu leiðina í undanúrslit.