Handbolti.is heldur áfram að kynna þá leikmenn sem keppa fyrir Íslands hönd á HM í handknattleik sem hefst í Egyptalandi 13. janúar. Flautað verður til fyrsta leiks Íslands á mótinu daginn eftir en þá mætir íslenska landsliðið Portúgölum.
Tuttugu leikmenn eru í landsliðshópnum og er reiknað með að sá fjöldi fari til Egyptalands þótt aðeins megi tefla 16 leikmönnum fram í hverjum leik.
Næstur í röðinni er Björgvin Páll Gústavsson, markvörður. Hlekkur á fyrri kynningar er að finna neðst í þessari grein og svo verður framvegis þar til kynningum lýkur um það bil þegar flautað verður til leiks á HM í Egyptalandi þar sem handbolti.is verður vitanlega ásamt landsliðinu.
Björgvin Páll Gústavsson
Björgvin Páll er 35 ára gamall markvörður Hauka. Hann hefur tekið þátt í öllum stórmótum íslenska landsliðsins frá Ólympíuleikunum í Peking 2008, alls 13. Hann er reynslumesti leikmaður liðsins um þessar mundir. Björgvin Páll hefur leikið 230 landsleiki og skorað í þeim 13 mörk. Þar af eru 35 leikir og eitt mark í fimm lokakeppnum HM. Björgvin Páll var í silfurliði Íslands á Ólympíuleikunum 2008 og bronsliðinu á EM 2010.
Sinn fyrsta A-landsleik lék Björgvin Páll gegn Pólverjum í Ólafsvík 1. nóvember árið 2003.
Björgvin Páll var í gullliði Íslands á EM U18 ára liða 2003.
Björgvin Páll fæddist á Hvammstanga en hóf handknattleiksferil sinn með HK hvar hann lék til ársins 2005, þó með skammtíma stans hjá Víkingi í yngri flokkum. Hann lék með meistaraflokki HK fram til sumarsins 2005 að hann skipti yfir til ÍBV. Í Eyjum var Björgvin Páll eina leiktíð uns hann gerðist liðsmaður Fram sumarið 2006 og var þar í tvö keppnistímabil.
Sumarið 2008 hleypti Björgvin Páll heimdraganum og lék með þýska liðinu TV Bittenfeld 2008-2009, Kadetten Schaffhausen í Sviss frá 2009-2011, SC Magdeburg í Þýskalandi 2011-2013 og Bergischer HC í fjögur ár þar á eftir, 2013 til 2017. Þá flutti hann heim og lék með Haukum leiktíðina 2017 til 2018 en fór um sumarið til Skjern í Danmörku. Hjá Skjern var Björgvin Páll þar til síðasta sumr að hann flutti heim til Íslands ásamt fjölskyldu og gekk til liðs við Hauka á ný.
Björgvin Páll varð svissneskur meistari með Kadetten Schaffhausen.
Fyrri kynningar: Ágúst Elí Björgvinsson.