- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

HM: Danir töpuðu þræðinum og Frakkar gengu á lagið

Frakinn Orlane Kanor freistar þess að skora hjá Althea Reinhardt markverði Dana. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Frakkar leika til úrslita á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik á sunnudaginn. Ólympíumeistararnir unnu Dani, 23:22, í undanúrslitum í Granolles á Spáni í kvöld. Danir voru tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 12:10.


Síðustu rúmar tíu mínútur leiksins fór sóknarleikur Dana í baklás. Danska liðið var þremur mörkum yfir, 20:17, þegar rúmar 12 mínútur voru til loka leiksins. Frakkar jöfnuðu metin, 20:20, og komust yfir í framhaldinu í fyrsta sinn í leiknum. Franska liðið hélt frumkvæðinu til leiksloka með öflugri 5/1 vörn sem Danir áttu engin svör við.


Leikmenn og þjálfari danska landsliðsins hljóta að naga sig í handarbökin eftir þennan leik. Danir voru með tögl og hagldir í nærri 50 mínútur en á einhvern óskiljanlegan hátt töpuðu þeir frumvæðinu niður.

Frakkar leika við Norðmenn eða Spánverja í úrslitaleiknum á sunnudaginn en síðarnefndu þjóðirnar tefla fram liðum sínum í síðari undanúrslitaleiknum sem hefst klukkan 19.30.


Danir leika í fyrsta sinn í átta ár um verðlaun á heimsmeistaramóti á sunnudaginn en þeir unnu bronsið á HM 2013 sem fram fór í Serbíu. Frakkar léku síðast til úrslita á HM fyrir fjórum árum er þeir mættu og unnu Rússa í úrslitaleik á heimavelli.


Mörk Frakka: Pauletta Foppa 4, Meline Nocandy 3, Grace Zaadi Deuna 3, Alicia Toublanc 3, Estelle Nze Minko 3, Allison Pineau 3, Chloe Valentini 1, Coralie Lassource 1, Laura Flippes 1, Lucie Granier 1.
Mörk Danmerkur: Line Haugsted 5, Anne Mette Hansen 4, Mie Enggrob Højlund 3, Kathrine Heindahl 2, Kristina Jørgensen 2, Trine Østergaard Jensen 2, Lærke Pedersen 1, Louise Burgaard 1, Simone Catherine Petersen 1, Rikke Iversen 1.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -