- Auglýsing -
- Auglýsing -

HM: Góð uppskriftabók nægir ekki ein og sér

Mynd/EPA
- Auglýsing -

Margt hefur verið rætt og ritað um heimsmeistaramótið sem stendur yfir í Egyptalandi. Umræðan um áhrif kórónuveirunnar hefur verið mikil og nánast yfirþyrmandi enda hefur fátt komist annað að í fréttum síðasta árið eða svo. Veiran hefur slegið daglegt líf um allan heim út af laginu. Sumt sem skrifað hefur verið á sér litla stoð m.a. fullyrðingar um að sóttvarnir séu lítt í hávegum hafðar.


Af fenginni reynslu, eftir vikudvöl í Kaíró, þá eru fullyrðingar um að sóttvarnir séu lítt eða vart í hávegum hafðar út í bláinn. Vera kann að mér mæti annar raunveruleiki þegar ég skipti um hótel í vikunni. Hingað til hef ég ekki rekið mig á annað en að langflestir reyni að gera sitt besta, jafnt heimamenn sem gestir. Ekki má gleyma að ástandið er ekki burðugt í mörgum grannlöndum Íslands m.a. Danmörku. Ágætur maður sagði hér á dögunum að vissulega ætti að forðast samneyti við heimamenn en einnig Dani.

Þórðargleði ríkir

Í umfjöllun um mótið hefur mikið veður verið gert vegna smita veirunnar og hefur það nánast skyggt á allt annað. Segja má að Þórðargleði ríki sumstaðar, vonir um að allt fari hér í handaskolum og mótinu verði slaufað áður en yfirlíkur. Aumingja handknattleikshreyfingin að reyna þetta. Vissulega er veirufjandinn á sveimi hér í Egyptalandi eins og annarstaðar. Á það skal hinsvegar bent að nær öll tilfelli sem komið hafa upp á mótinu hafa greinst við landamæraskimun.

Vissulega átti að fresta

Vissulega var rangt að fresta ekki mótinu fram á vor. Freista þess að nota veturinn til að ljúka deildarkeppni í Evrópu og vonast til að hægt væri að halda HM við betri aðstæður í vor. Það var ekki gert. Hingað eru keppendur, þjálfarar og margir forráðamen liðanna mættir og fá flestir litlu ráðið. Kannski er helst við forráðamennina að sakast um að hafa ekki sett stólinn fyrir dyrnar, krafist að mótinu yrði frestað eða slegið af í stað þess að þegja þunnu hljóði. Forsvarsmenn stóru aðildasambanda Aþjóða handknattleikssambandsins hafa ekki mikið gagnrýnt opinberlega að haldið væri áætlun. Voru það ekki leikmenn og samtök þeirra sem voru í fararbroddi til að fá hnekkt ákvörðun mótshaldara um að leikið yrði fyrir framan þúsundir manna á hverjum leik svo dæmi sé tekið?

Að láta sér detta í hug

Eitt er að halda heimsmeistaramót með metfjölda keppnisliða við þessar aðstæður í heiminum. Hitt er það að mér þykir ekki síður alvarlegt að hinni alþjóðlegu handknattleikshreyfingu skuli detta í hug að halda stórmót í þessu landi og þá burt séð frá því hvort heimsfaraldur ríki eða ekki. Það var alls ekki fyrirséð þegar ákvörðun um mótahaldið var tekin að heimurinn logaði í veirufaraldri.

Kylfa ræður kasti

Egyptaland hefur ekki burði til þess að halda viðburð af þessu tagi. Hér virðist vera lítil kunnátta fyrir hendi til að halda stórviðburði. Hafandi verið á um tveimur tugum stórmóta verður að segja eins og er að margt er hér í skötulíki. Ekki er einu sinni hægt að búa til tímaáætlun hvenær fjölmiðlamönnum, þeim fáu sem hér eru, stendur til boð akstur frá hóteli að íþróttahöll og til baka aftur. Hvað þá meira. Vegna þess að við búum í nokkurskonar sóttkví milli leikja og fjarlægðir eru talsverðar megum við ekki ferðast með hverjum sem er til og frá keppnisstað og alls ekki yfirgefa hótelsvæðið á milli leikja. Kylfa ræður kasti hvenær er hægt að komast frá stað A til B og aftur til A.

Kettir í staðinn fyrir dúfur

Þetta er aðeins eitt örlítið dæmi sem skiptir í sjálfu sér ekki miklu í stóra samhenginu þegar kemur að keppninni. Dæmin eru fleiri og stærri og þeir fáu Evrópubúar sem hér eru að klóra í bakkann með heimamönnum við skipulagsmálin reyta hár sitt og skegg. Ástandið í skipulagsmálum mótsins virðist alveg jafn dapurt og í Túnis þegar HM fór þar fram fyrir 16 árum. Reyndar virðist hafa gleymst að koma dúfum fyrir upp í rjáfri íþróttahallanna en í stað þeirra eru hinir heilögu kettir faróa á vappi inn á keppnisgólfum í kappleikjum hér.

Með brækurnar á hælunum

Dæmið um tímaáætlanir akstursins segir hinsvegar meira en mörg orð hversu aftarlega Egyptar eru á merinni þegar kemur að skipulagsmálum. Það hefur bara hreinlega ekkert með veirufaraldurinn að gera. Menn væru hér með brækurnar á hælunum þótt heimsbyggðin hefði aldrei heyrt orði minnst á covid19. Æfingatíma íslenska landsliðsins í gær var breytt upp úr miðnætti kvöldið áður. Þá var víst allt komið í graut hjá Egyptunum eina ferðina enn með að skipta æfingatímum í íþróttahúsum á milli nokkurra landsliða.

Alvarlegt íhugunarefni

Í raun og sann er það alvarlegra íhugunarefni fyrir hina alþjóðlegu handknattleikshreyfingu að mótið fari fram í landi sem hefur takmarkaða getu til þess, en að það fari fram í miðjum heimsfaraldri. Kannski bjargaði heimsfaraldurinn alþjóða handknattleikshreyfingunni frá algjörri katastroffu þegar allt kemur til alls. Ég hefði ekki boðið í að hingað hefðu komið þúsundir fjölmiðlamanna og áhorfenda í skipulagsleysið jafnvel þótt ástandið væri „eðlilegt“. Góð uppskriftabók kemur að litlum notum þegar menn kunna ekki að fara eftir henni.

Ívar Benediktsson, ivar@handbolti.is

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -